Undarlegir útreikningar

Í þarsíðustu viku birtist 

grein eftir Sigurgeir Brynjar Kristgeirsson 

um
strandveiðarnar og slæma útreið þeirra samkvæmt upplýsingum Hagstofu
Íslands um rekstrarafkomu fiskiskipaflotans.  Í síðustu viku svaraði
formaður LS Sigurgeiri og bar svargreinin titilinn „Undarlegir
útreikningar.  Hér að neðan er greinin í heild sinni:  

„Undarlegir útreikningar

Í
síðustu viku birtist í Fiskifréttum grein eftir Sigurgeir Brynjar
Kristgeirsson, framkvæmdastjóra Vinnslustöðvarinnar í Vestmannaeyjum, undir
fyrirsögninni „Brostin glansmynd strandveiðanna. Skrif sín byggir hann á
nýlegum upplýsingum frá Hagstofu Íslands um afkomu í sjávarútvegi árið 2010.

Samkvæmt
þessum upplýsingum Hagstofunnar var afkoman í strandveiðum afleit á sama tíma
og allur fiskiskipaflotinn skilaði ríflegum hagnaði. Þar munar hvorki meira né
minna en því, að strandveiðarnar voru reknar með 30% tapi en aðrir státuðu af
20% hagnaði að meðaltali.

Þessar
niðurstöður eru athyglisverðar, svo ekki sé fastar að orði kveðið.  Fyrir það fyrsta eru bátar undir 10 tonnum
teknir út fyrir sviga og þar eru þeir flokkaðir í strandveiðar sérstaklega og
aðra undir þessum stærðarmörkum ásamt því að blanda þeim saman. Smábátar eru
skilgreindir samkvæmt lögum upp að 15 tonnum og bátahópurinn milli 10 og 15
tonna vegur þungt í heildarmynd smábátaveiðanna og afkomunni.  Hvers vegna þeim er sleppt kemur ekki fram í
skýrslu Hagstofunnar.

Hagstofan þarf að
útskýra

Hvað
um það, Hagstofan reiknar að rúmlega 500 strandveiðibátar hafi tapað um 500
milljónum á árinu 2010, sem þýðir að hver og einn sem stundaði þessar veiðar
borgaði með sér u.þ.b. eina milljón til að geta stundað hinar glansbornu
veiðar.

Satt
best að segja finnst mér það heldur ólíklegt þó ekki væri af annarri ástæðu en
þeirri að langflestir þeirra sem stunda strandveiðarnar koma úr öðru hvoru
kvótakerfinu, aflamarki eða krókaaflamarki. Hvers vegna í ósköpunum ættu þeir
að eyða slíkum fjármunum í það eitt að afsala sér því að stunda arðbærar
veiðar, eins og útreikningar Hagstofunnar sýna að þeir gera þegar þeir eru ekki
á strandveiðum?

Hagstofan
ætti að auki að útskýra hvernig það má vera að þeir hinir sömu skili 30-40%
minni framlegð við það eitt að skipta úr t.d. krókaaflamarki yfir í
strandveiðar. Þeir sækja sömu miðin, nota iðulega sömu veiðarfærin og róðrarnir
jafnvel styttri en að öðru jöfnu.

Forsendur óljósar

Það
er alltaf vont að gagnrýna tölur, sérstaklega þegar maður hefur ekki það sem á
bak við þær stendur. Því læt ég vera að rengja þær, en í ljósi þess sem hér að
framan segir verður Hagstofan að gera grein fyrir því hvernig hún flokkaði í
strandveiðarnar. Framtak Hagstofunnar að skoða þennan útgerðarmáta sérstaklega
og flokka rekstrarliði er frábært.

Þetta
ætti hún hinsvegar að gera við fleiri útgerðarform.  Strandveiðar skiluðu í land innan við 2% af
botnfiskaflanum 2010 og vega því létt í heildarmyndinni.

Þessi
skýrsla Hagstofunnar vakti bæði forvitni mína og athygli. 

Kannski
er aldurinn að deyfa í mér viðvörunarbjöllurnar, því ekki raskaði hún
svefnmunstrinu mínu.

Öðru
sýnist mér gegna um Sigurgeir Brynjar, því ég fékk sterklega á tilfinninguna að
þessar upplýsingar hafi opinberað fyrir honum að íslenskt samfélag stefni, að
óbreyttu, hraðbyri í mun heitara umhverfi en flestir óska sér.

Allt í kalda koli

Sigurgeir
Brynjar byrjar skrifin á því að senda þeim sem stunduðu sjávarútveginn fram að
kvótasetningunni 1984 kaldar kveðjur. Áður fyrr var allt í kalda koli og
glundroðinn einn við stýrið.

Ég
ætla ekkert að gera lítið úr því að ýmislegt fór miður hér áður fyrr og
undanlátsemi stjórnvalda við grátmeistara sjávarútvegsins á stundum
yfirgengileg. En hvernig sem reynt er að snúa því á hlið eða hvolf, þá er
staðreyndin sú að áður en árið 1984 rann upp var búið að byggja hér upp
samfélag sem sómdi sér vel, hvar sem var. 
Þetta samfélag var að drjúgum hluta byggt upp af dugnaði, eljusemi og
útsjónasemi í sjávarútvegi.

Eftir
þennan uppbyggjandi inngang tíundar Sigurgeir allt sem nöfnum tjáir að nefna
til hnjóðs strandveiðunum. Nú er honum jafn kunnugt og mér að uppistaðan í
bátum í strandveiðunum er smábátar í aflamarki eða krókaaflamarki.  Sigurgeir er því í raun að koma þeim boðskap
á framfæri hversu mikil óþurft er af smábátaflotanum.

Betri tíð?

Sigurgeir
fullyrðir að í kjölfar kvótasetningarinnar 1984 hafi hér hafist tímaskeið
batnandi lífskjara og vendipunkturinn verið 1990, þegar viðskipti með
aflaheimildir urðu að veruleika.

Ég
er afskaplega efins um að þetta standist skoðun. Í dag eru íslenska ríkið og
almenningur skuldugri en nokkru sinni í sögu þjóðarinnar. Það stoðar lítt að
ætla að þakka útveginum uppganginn ef ekki á að huga neitt að tengslum hans við
niðurganginn.

Sjálfur
notar Sigurgeir orð eins og „bölsýni og „vonleysi fari svo að strandveiðarnar
lifi, svo skelfilegar yrðu afleiðingar. 
Sigurgeir þarf ekki að bíða eftir því að spádómur hans rætist. Bölsýni
og vonleysi ríkir víða í samfélaginu, án þess að strandveiðar eða útgerð komi
þar við sögu.

Niðurlag
greinarinnar er í anda góðra greinarskrifa. Höfundurinn skrifar í hring og
endar í vonleysi, upplausn og óreiðu, rétt eins og í upphafi.

Mér
leið hálf einkennilega eftir lesturinn. Er íslenskur sjávarútvegur eftir allt
saman ekki öflugri en svo að tilveru hans sé ógnað með „slysi á borð við
strandveiðarnar?

Ég
segi nú ekki annað en……Get a life!