Búast má við meðalvertíð

Eftirfarandi grein eftir Örn Pálsson birtist í Fiskifréttum 4. apríl:
Vertíðin 1984 skilaði 26.771 hrognatunnu sem er mesti 
vertíðarafli grásleppu hér við land nokkru sinni. 
ÖP 05-2009.jpg

Grásleppuveiðar standa sem hæst
Búast má við meðalvertíð
Grásleppuvertíðin stendur nú sem hæst. Vertíðin hófst af fullum krafti 15. mars og er hvert leyfi gefið út til 50 daga innan 75 daga tímabils. Veiðum verður því að mestu lokið um mánaðarmótin maí/júní, en frá þeim tíma verða aðeins bátar á innanverðum Breiðafirði að veiðum.
Það er nýmæli á vertíðinni að allt er hirt sem veiðist. Í kjölfar þess að tókst að finna markað fyrir grásleppuna eftir að hrognin hafa verði tekin úr henni var skrefið stigið til fulls í nýtingunni. Í flestum tilvikum er komið með grásleppuna heila að landi þar sem hún er skorin eftir kúnstarinnar reglum, hrognin skilin frá og fiskurinn hreinsaður og frystur til útflutnings. Með þessu hafa tugir starfa skapast í landi og meira líf færst í vertíðina.  
Árangur áratuga vinnu
Landssamband smábátaeigenda (LS) er stolt af þessum árangri í markaðsstarfi sem það hefur átt aðild og borið hefur ríkulegan árangur eftir áratuga vinnu.  Fjölmargir hafa komið að þessu máli á tímanum, nú síðast Triton ehf. sem tókst fyrst fyrirtækja að ná sölu á afurðinni í Kína.
Ávinningur þessa kemur fram á fjölmörgum sviðum. Það sem áður fór í sjóinn skilar nú tekjum til útgerða og sjómanna, uppfyllt er ákvæði laga um umgengni um auðlindir sjávar um að koma með allt að landi sem markaður er fyrir. Auk þessa hafa fjölmörg störf skapast í landi við verkun og frágang grásleppunnar til útflutnings. Þá er ótalin umsýsla við útflutning og flutningur um langan veg. Kaupendur í Kína taka þar við fiskinum og útbúa hann á disk neytenda. Að sögn eigenda hins kínverska fyrirtækis sem kaupir mest af grásleppu héðan er fiskurinn einstakur, hann sker sig úr öllum öðrum á markaði hjá þessari þjóð sem telur á annan milljarð manna.
Samhæfing framboðs og eftirspurnar
Grásleppuveiðar hafa verið stundaðar hér í marga áratugi og hefur LS tölulegar upplýsingar um útflutning frá 1945. Af þeim tölum sker árið 1976 sig úr hvað magn snertir en þá voru fluttar út 21.990 tunnur af söltuðum grásleppuhrognum.  Hér á árum áður gerðist það oftsinnis að ekki var hægt að halda aftur af veiðum með tilliti til þess hversu mikið markaðurinn kallaði eftir. Sátu þá veiðimenn gjarnan uppi með óseld hrogn í lok vertíðar sem var ekki hægt að losna við fyrr en ári síðar og þá voru þau jafnan seld miklum afslætti.  
Með öflugu upplýsingaflæði frá LS hefur tekist að upplýsa veiðimenn um þarfir markaðarins hverju sinni, viðmiðunarverð og veiðar annarra þjóða.   Þannig hefur dregið úr líkum á ofveiði, sem hefði leitt til óæskilegra verðlækkunar.  
Veiðistýring á grásleppu er með öðrum hætti en stýring á veiðum flestra annarra fisktegunda sem nýttar eru hér við land.  Enginn kvóti er á veiðunum, en takmarkanir og skynsamleg nýting stjórnast af fjölda leyfa, stærð báta, fjölda neta og veiðidaga, markaðsaðstæðum og síðast en ekki síst göngu grásleppunnar á miðin og veðurfari á vertíðinni.
Hafró leggur til 7.700 tunna hámark
Í síðustu ástandsskýrslu Hafrannsóknastofnunarinnar sem út kom í júní 2011 var þess getið að draga þyrfti úr sókn í grásleppuna. Lagt var til afli yrði ekki meiri en sem  svarar 7.700 tunnum af söltuðum hrognum. Ráðgjöf stofnunarinnar byggði á stofnvísitölu grásleppu 2011. Með hliðsjón af þessu var valtími til veiða styttur, sem óneitanlega hefur áhrif á heildarveiði vertíðarinnar.
Vertíðin 2011 gaf af sér 10.700 tunnur af hrognum en 2010 skilaði  17.900 tunnum.  Slíkur grásleppuafli hafði ekki sést síðan 1987 en þá fengust 22.876 tunnur af hrognum. Vertíðin 1984 skilaði hins vegar 26.771 hrognatunnu sem er mesti grásleppuafli hér við land nokkru sinni. Meðalvertíð síðastliðinna 10 ára er tæpar 11 þús. tunnur.
Útflutningsverðmæti grásleppuhrogna og kavíars í fyrra var 2,55 milljarðar, en 2010 nam verðmæti afurðanna 3,84 milljörðum.
Erfitt er að spá um hverju vertíðin nú skilar, en miðað við upphaf veiða og að um 340 bátar taki þátt í veiðunum má búast við meðalvertíð.
Höfundur er framkvæmdastjóri Landssambands smábátaeigenda.
 


Uppskriftir