Strandveiðin á sama róli og í fyrra

Þrátt fyrir að einungis tveir veiðidagar séu búnir af strandveiðunum þetta árið, er athyglisvert hversu mjög þær eru á pari við það sem gerðist á síðasta ári.  Meðalveiðin í róðri yfir landið árið 2011 var 523 kg í maímánuði, en er nú 510 kg.  Ívið fleiri veiðileyfi hafa verið gefin út fyrir komandi sumar en í fyrra, en svipaður fjöldi báta hefur hafið veiðar.  Því virðist sem svo, að þrátt fyrir að þetta kerfi sé enn barnungt að aldri, hafi ákveðið munstur fest sig i sessi.

Að venju eru flestir bátar byrjaðir á A svæðinu, þ.e. við Snæfellsnes og Vestfirði og þar er meðalveiðin í róðri einnig mest, eða 585 kg.  Það er því nokkuð víst að margir eru að ná dagsskammtinum og kannski ríflega það, því Fiskistofa sá ástæðu til að rifja upp hvað gert er við afla umfram það sem heimilt er að færa að landi daglega.  Sá afli er gerður upptækur og slík brot geta leitt til frekari aðgerða af hálfu Fiskistofu.  
Á B svæðinu, þ.e. fyrir Norðurlandi, er rólegastur gangur í strandveiðunum, venju samkvæmt.  Þar er meðalveiðin rétt rúmlega helmingur af því sem gerist á A svæðinu, eða 316 kg í róðri að meðaltali.  Þar eru aðeins 42 bátar byrjaðir veiðarnar, meðan 117 bátar eru byrjaðir á A svæði.  Þetta breytist fljótlega, þar sem grásleppuvertíðin er nú óðum að dragast upp og þá snúa margir veiðimenn á B svæðinu sér að næstu törn, strandveiðunum.