Samherji kýs frekar afla frá strandveiðibátum

Fram kom í fréttum RÚV í gær að Samherji hefur ákveðið að binda þrjá togara sína og byggja frekar á afla strandveiðibáta.  Fyrirtækið er þar með komið í hóp fjölmargra annarra sem keppast um kaup á afla bátanna um leið og það tryggir sér ferskt hráefni til vinnslu sem veitt er með umhverfisvænum veiðarfærum.
Strandveiðisjómaður sem rætt var við segir ákvörðun Samherja ekki koma á óvart, en alltaf taki tíma að sannfæra kaupendur um ágæti afla þeirra.  Samherji sé boðinn velkominn í hóp þeirra sem kjósa afla frá strandveiðibátum enda fyrirtækið í fremstu röð í vinnslu sjávarafurða.  Hann bætti því við að hann vonaðist til að veiðar strandveiðibáta gætu lagt sitt lóð á vogarskálarnar við að halda uppi fullri atvinnu í fiskvinnslu fyrirtækisins á Dalvík.
Í gær voru 210 tonn af þorski veiddum á handfæri seld á fiskmörkuðunum og var meðalverð 301 króna.