Aflaverðmæti lúðu 477 milljónir

Um síðustu áramótum tók gildi algjört bann við beinum veiðum á lúðu.  Þá var frá sama tíma bannað að koma með lúðu að landi, utan þeirra fiska sem ekki þykja lífvænlegir við borðstokk.  Komi lúða í veiðafæri sem meðafli ber umsvifalaust að sleppa henni svo fremi að hún sé lífvænleg, eins og segir í reglugerð þar um. 
Í 2. gr. reglugerðarinnar eru gefnar nákvæmar leiðbeiningar hvernig skal af þessu staðið:
Við línuveiðar skal sleppa allri lúðu með því að skera á taum línunnar.  Við handfæra- og sjóstangaveiðar skal varfærnislega losa lúðuna af krókum eða skera á lykkju slóðans áður en lúða kemur um borð.!
Í fréttatilkynningu sem Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið gaf út af þessu tilefni kemur m.a. fram að friðun lúðunnar sé tilkomin vegna tillögu Hafrannsóknastofnunarinnar sem hefur um langt árabil bent á slæmt ástand stofnsins. 
Skiptar skoðanir er meðal sjómanna á þessu banni allt frá því að láta það yfir sig ganga án mótmæla upp í að því hafi verið harðlega mótmælt.  Í þeim hópi eru sjómenn sem stundað hafa lúðuveiðar í áratugi og búa yfir gríðarlegri þekkingu á lúðustofninum.  
Við mótun umsagnar LS á sl ári við bann við beinum lúðuveiðum var stuðst við vel rökstudd sjónarmið þessara aðila og bent á að styrking lúðustofnsins fælist ekki í að friða lúðu sem væri eldri en 10 ára.  
Þá vakti LS athygli ráðuneytisins á að lúðuveiðimenn sem stundað hefðu veiðarnar sl. áratugi upplifðu stöðugleika í veiðunum bæði hvað magn og samsetningu afla varðaði.  Veiðarnar væru arðbærar og hefðu að hluta til fyllt þá verðmætaskerðingu sem lokun markaða með leigukvóta og skerðing þorskveiða hefði leitt af sér.
Í umsögninni sagði einnig eftirfarandi:
„LS lýsir sig reiðubúið til samstarfs við SLR og Hafró um upplýsingar um ástand lúðustofnsins og tillögugerð sem miða að því að styrkja stofninn. Í því sambandi er bent á sérfræðingahóp LS um lúðuveiðar og gríðarlegan upplýsingabanka um lúðu í N-Atlantshafi sem unnin hefur verið hjá Hafrannsóknastofnuninni í Nova Scotia. Samstarf hefur verið með þeirri stofnun og lúðuveiðimönnum á Íslandi þar sem m.a. liggur fyrir að lúðan ferðast milli heimsálfa, sem gefur sterkar vísbendingar um að hér við land sé ekki sérstakur staðbundinn stofn.
Lúðuafli sl. árs varð 532 tonn sem skilaði 477 milljónum í aflaverðmæti.
Nýverið rataði málið inn Alþingi þegar Lúðvík Geirsson (S) beindi fyrirspurn til sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra um bann við lúðuveiðum.