Frakkar bæta við sig í þorski og ýsu

Það fer ekki milli mála að Frakkar sækjast eftir ferskum fiski frá Íslandi.  Á fyrsta ársfjórðungnum höfðu þeir keypt héðan 45% meira af ferskum þorski en á sama tíma í fyrra og um 90% meira af ýsu.
Frakkar kaupa mest allra þjóða af ferskum þorski frá okkur en Bretar sem lengst af hafa verið í fyrsta sæti eru þar skammt á eftir.  Samanlagt voru þjóðirnar tvær með 69% alls magns sem selt var á tímabilinu miðað við 73% í fyrra.
Tæpur helmingur af ferskri ýsu hefur verið flutt til Bretlands og hlutur Bandaríkjanna er rúmur fjórðungur magnsins.  Frakkar eru númer þrjú yfir stærstu kaupendur af ferskri ýsu og hafa þar siglt fram úr Belgum miðað við tímabilið janúar – mars 2011.
Athyglisvert er að þrátt fyrir kvótasamdrátt í ýsu hefur heildarmagn til útflutnings aukist um 9% milli ára, varð alls 1.421 tonn.   
Sambærilegar tölur í ferskum þorski eru 19% og 3.770 tonn.
Unnið upp úr tölum frá Hagstofu Íslands