Landssamband smábátaeigenda lét fyrir örfáum árum gera kvikmyndina Þeir fiska sem róa.
Myndin fjallar um trillukarla og sýnir m.a. hvernig starf þeirra hefur áhrif á líf og störf í landinu.
Á sjómannadaginn nk. sunnudag 3. júní kl. 16:00 verðu myndin á dagskrá Sjónvarpsins
Í myndinni er á léttan og líflegan hátt fylgst með sjómönnum, og fólki þeim tengdum, á Vopnafirði, Bakkafirði, Bolungarvík, Grímsey, Arnarstapa, Þórshöfn, Ólafsvík, Raufarhöfn, Hellissandi, Reykjavík, Flateyri og Grindavík.
Í gegnum þessa samfylgd kynnist áhorfandinn störfum trillukarla og viðhorfum þeirra til lífsins og sjómennskunnar, til dæmis hvað sé sérstakt við að vera trillukarl, hvers vegna menn eru blautari í framan ef steinbítur er á línunni en þorskur og rætt um það hvort trillusjómenn heyri sögunni til. Að auki eru falleg og fjölbreytt myndskeið frá þessum stöðum á landinu og viðtöl.
Í myndinni eru afar falleg neðasjávarmyndskeið þar sem fylgst er með þorski og steinbít samhliða og Steindór Andersen trillukarl og kvæðamaður fer með viðeigandi rímur og Eyvör Pálsdóttir lífgar umhverfið með sinni einstöku rödd.
Meðal þeirra sem koma fram í myndinni auk framangreindra eru: Ólafur Jens Daðason og Guðmundur Halldórsson frá Bolungarvík, Heiðar Runólfsson frá Vopnafirði, Marinó Jónsson, Hjálmar Hjálmarsson og Áki H. Guðmundsson frá Bakkafirði, Birgir Guðjónsson frá Reykjavík, feðgarnir Smári Lúðvíksson og Lúðvík V. Smárason frá Hellissandi, Þorgeir Hjaltason frá Raufarhöfn, hjónin Þórlaug Guðmundsdóttir og Þorlákur Helgason frá Grindavík og Guðrún Pálsdóttir og Einar Guðbjartsson frá Flateyri, Högni Bergþórsson bátasmiður, Ólafur Bjarni Ólafsson og Helga Mattína Björnsdóttir frá Grímsey, Agnar Indriðason frá Raufarhöfn, Halldór Jóhannsson frá Þórshöfn, Haraldur Sigurðsson frá Núpskötlu, auk þess sem rætt er við Jón Kristjánsson fiskifræðing, Guðrúnu Marteinsdóttur prófessor og sýnt frá fundi um fiskveiðar á Ólafsvík.
Þulur í myndinni er Þröstur Leó Gunnarsson, sjómaður og leikari.
Framleiðandi „Þeir fiska sem róa er Lífsmynd.