Verða ófær um að keppa á alþjóðlegum mörkuðum

Á samstöðufundi á Austurvelli fimmtudaginn 7. júní sl. flutti Þorvaldur Garðarsson frá Þorlákshöfn og stjórnarmaður í LS ræðu. 
Ræða Þorvaldar:
„Fundarstjóri, góðir fundarmenn og tilheyrendur 
Ég heiti Þorvaldur Garðarsson og geri út smábát í Þorlákshöfn og er hér fyrir hönd Landsambands smábátaeigenda.
Þorvaldur Garðarsson.png
Stjórn Landssambandsins hélt fund í gær þar sem fjallað var um það ástand sem komið er upp vegna stefnu stjórnvalda og framkominna frumvarpa um veiðigjöld og fiskveiðistjórnun, á fundinum var samþykkt ályktun sem ég ætla nú að lesa enda skýrir hún ágætlega afstöðu stjórnar Landssambands smábátaeigenda í þessum málum.
„Samþykkt stjórnarfundar Landssambands smábátaeigenda 6. júní 2012, haldinn í Reykjavík
 
Stjórn Landssambands smábátaeigenda furðar sig á vinnubrögðum ríkisstjórnar Íslands gagnvart undirstöðuatvinnugrein þjóðarinnar, sjávarútveginum. Framkomin frumvörp hennar munu á örfáum árum, með ofurskattlagningu og vanhugsuðum lagabreytingum, gera stærstan hluta fyrirtækjanna óstarfhæfan.
 
Þessar aðgerðir eru ekkert annað en ígildi skemmdarverka á heilli atvinnugrein og munu verða þess valdandi að heil stétt fólks er rænd lífsviðurværi sínu.
Nú stendur landsbyggðarfólk á Íslandi frammi fyrir þeirri staðreynd að soga á allt mögulegt fjármagn útúr sjávarútveginum og þar með stærstan hluta þess fjármagns sem landsbyggðin hefði annars til fjárfestinga.
 
Landssamband smábátaeigenda er og mun verða málsvari hinna dreifðu byggða. Þess vegna getur félagið ekki með nokkru móti látið þetta  gerast án þess að grípa til aðgerða, þar með talið þeirra sem staðið er fyrir þessa dagana.
 
Í lögum er talað um neyðarrétt sem síðasta hálmstrá fólks sem sett er í vonlausar aðstæður. Nái frumvörpin fram að ganga mun löggjafinn kalla yfir stóran hluta þjóðarinnar slíkar aðstæður að mögulegt er að fólk grípi til einhvers konar neyðarréttar með afleiðingum sem enginn sér fyrir í dag.
 
Stjórn Landssambands smábátaeigenda krefst þess að frumvörp um veiðigjald og fiskveiðistjórnun verði þegar í stað dregin til baka.
Landssamband smábátaeigenda lýsir sig enn og aftur reiðubúið til viðræðna við stjórnvöld.
Ályktun lýkur
 
Það sem vekur furðu mína er að stjórnvöld skuli ætla að umbylta starfsumhverfi sjávarútvegsins svo gersamlega.  Í dag eru allar útgerðir í landinu að greiða verulegt auðlindagjald, það er mjög einfalt að hækka það gjald og Landssamband smábátaeigenda hefur lýst sig samþykkt því að gjaldið sé hækkað upp í einhver skynsamleg mörk sem greinin geti búið við, en það er ekki nóg, ríkisstjórnin virðist vilja ganga frá þessari atvinnugrein dauðri.
Það er heimskur bóndi sem blóðmjólkar bestu mjólkurkúna þar til hún verður geld og gefur aldrei meira af sér.
Ráðherra sem leggur svo þunga skatta á eina atvinnugrein að enginn geti stundað þar heilbrigðan rekstur ætti  aldrei að gerast bóndi.
Þessar hugmyndir stjórnvalda að skattleggja greinina langt umfram greiðslugetu og öll eðlileg mörk  eru svo furðulegar og svo fáránlegar að enginn umsagnaraðili hefur treyst sér til að mæla með þeim við atvinnuveganefnd.  Það sjá það allir hugsandi menn að við slíka skattheimtu drabbast þessi fyrirtæki niður á fáum árum og verða algerlega ófær um að keppa á alþjóðlegum mörkuðum og verðin fyrir afurðirnar munu fara lækkandi með lakari gæðum, engin atvinnutæki verða endurnýjuð og þetta verður allt að einhverju drasli sem enginn vill koma nálægt og getur ekki gefið af sér neinn arð, eigendurnir tapa, starfsfólkið tapar, sveitarfélög tapa, þjónustugreinarnar tapa, ríkissjóður tapar en erlendir keppinautar hagnast hins vegar og eiga eftir að hlæja að okkur um ókomin ár ef þessi áform verða að veruleika.
Ég skora á alþingismenn að leggja á sjávarútveginn hóflegt auðlindagjald sem kollkeyrir ekki greinina þannig að við getum haldist áfram í fremstu röð í heiminum hvað gæði sjávarafurða varðar.
Sáttanefndin svonefnda starfaði um margra mánaða skeið og skilaði af sér tillögum að breytingu á lögum um stjórn fiskveiða, í þetta var lögð mikil vinna og í fyrsta skipti um áratuga skeið hillti undir sátt um málefni sjávarútvegsins, sátt með aðkomu allra hagsmunaaðila, verkalýðsfélaga, Alþýðusambandsins og stjórnvalda.
Ég taldi að þarna væri loksins að myndast friður um málefni greinarinnar, friður sem allir hafa þráð um áratuga skeið.
En það vilja ekki allir frið, tillögur nefndarinnar höfðu varla litið dagsins ljós þegar forsætisráðherra tók þær og læsti ofan í skúffu og þær hafa varla verið ræddar síðan.
Þessi ríkisstjórn kærir sig ekkert um frið eða sátt, þessi ríkisstjórn er ríkisstjórn ófriðar, átaka og ósættis, málin eru keyrð í gegn með hótunum og lögð fram af fullkominni vanþekkingu án samráðs við þá sem í greininni starfa eða búa yfir þekkingu á málefnunum.
Ég skora hér með á þingmenn og ríkisstjórn að draga frumvörpin um veiðigjald  og fiskveiðistjórnun  til baka og efna til víðtæks samráðs með hagsmunaaðilum þar sem lokið verði því ágæta starfi sem sáttanefndin svonefnda vann og verkið klárað af yfirvegun og ábyrgð.
Góðar stundir