Reglugerðarbreyting um kælingu fisks

Í sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu hefur verið unnið að breytingu á reglugerð um kælingu fisks eftir að hann kemur um borð í fiskiskip sem stunda róðra sem standa skemur en 24 klst. 

Breytingin á að vera til einföldunar, en jafnframt áréttingar um að skylda er að kæla allan bol- og flatfisk og á því eiga engin undanbrögð eða undantekningar að vera.
Fiskveiðar eru að sjálfsögðu ekkert annað en matvælaframleiðsla og það með matvöru sem er mjög viðkvæm fyrir hnjaski. Svo mjög munar t.d. á fiski og kjöti – t.d. lambakjöti, að fiskurinn er 800 sinnum viðkvæmari en kjötið. 
Í öðrum matvælaiðnaði eru gerðar sífellt harðari kröfur um kælingu og rannsóknir sýna sífellt betur fram á hversu mikilvæg hún er til að tryggja hollustu viðkomandi malvæla. 
Í reglugerðinni, sem gert er ráð fyrir að taki gildi 1. september n.k. er kveðið á um afla skuli kæla eins fljótt og auðið er eftir að hann er kominn um borð í veiðiskip, annað hvort með ís eða sjókælibúnaði.  Sé ís notaður skuli hann vera sýnilegur með aflanum í körunum, bæði við flutning og löndun.     
Þá skal skipstjóra skylt, sé hann beðinn þess, að sýna fram á að nægur ís hafi verið eða sé til staðar til að kæla aflann, hafi sjókæling ekki verið notuð. Væntanlega þarf hann að gera það með ísnótum, en þetta getur sjálfsagt orðið þrætuepli, hafi ís verið tekinn af bryggju án þess að nokkur hafi verið að því vitni nema skipstjórinn sjálfur. 
Jafnframt er kveðið á um að hitastig afla skal vera undir 4 gráðum, fjórum stundum eftir að hann hefur verið tekinn um borð. Þá verður skylda að verja aflann fyrir sólarljósi og öðrum hitagjöfum og afli sem geymdur er utandyra skal varinn með loki eða yfirbreiðslum á kör.
Eins og áður segir tekur reglugerðin að öllum líkindum gildi 1. september n.k.  
Screen Shot 2012-06-13 at 11.44.28 PM.png