Í dag barst auglýsing frá sjávarútvegsráðuneytinu um stöðvun strandveiða á svæði D, frá Hornafirði til Borgarbyggðar.
Í þetta skipti er gefinn ögn lengri fyrirvari um lokunina en oftast áður, en hún tekur gildi frá og með fimmtudeginum 28. júní n.k.
Miðað við upplýsingar á vef Fiskistofu, höfðu til og með deginum í dag verið veidd rúm 390 tonn á svæðinu af 143 bátum í 969 löndunum. Það gerir rúm 400 kg í róðri að meðaltali, sem telst alveg bærilegt á svæðinu, sem telst síður en svo til öflugra handfæramiða á þessum árstíma. Samtals má veiða á svæði D 525 tonn í júní, þannig að Fiskistofa áætlar að þau 135 tonn sem útaf standa náist í dag og næstu tvo daga.
Svæði C er það eina sem að öllum líkindum nær því að vera opið alla leyfilega daga í júní. Þar má veiða 661 tonn í mánuðinum, en á land eru komin 473 tonn.
Á skaki í Breiðafirði. Kviðbjartir stórþorskar á öllum járnum!