Er einhver fiskimaður í salnum?

Eftirfarandi grein eftir Arthur Bogason birtist í Fiskifréttum 28. júní sl:
Umhverfisráðstefnan í Ríó í Brasilíu
Á stærstu umhverfisráðstefnu sem nokkru sinni hefur verið haldin og fjallaði mikið um þátt hafsins hafði fiskimönnunum ekki verið boðið. Þvílík skömm
Heimurinn skreppur sífellt saman eftir því sem samskipti verða auðveldari. Í dag er lítið mál að „skreppa heimshorna á milli til að taka þátt í hvers kyns atburðum og svo er mögulegt að fylgjast með í tölvunni heima fyrir, taka þátt með skjátækni og jafnvel atkvæðagreiðslum.
Boðsbréf frá SÞ
Fyrir nokkru barst mér boðsbréf í nafni Sameinuðu þjóðanna og brasilísku ríkisstjórnarinnar um að taka þátt í stærstu umhverfisráðstefnu sem nokkru sinni hefur verið haldin, Rio +20. Ráðstefnan bar nafnið af þeirri einföldu ástæðu að 20 ár eru liðin frá hinni frægu ráðstefnu í borginni þar sem til varð Rio sáttmálinn varðandi umhverfismál.
Ég hef alla tíð verið talsmaður samstarfs á sem breiðustum vettvangi og tel að aukinn skilningur, upplýsingagjöf og -söfnun stuðli að betra mannlífi á litlu jörðinni okkar.
Sú staðreynd ein og sér er þyngri en tárum taki, að yfir milljarður manna skuli svelta á sama tíma og matvælaframleiðslan er mun meiri en þarf til að metta allt mannkynið. Það andstyggilegasta er að börn eru stór hluti þessa mikla vannærða mannhafs.
Þátttakendalistarnir
Áður en ég svaraði þessu ágæta boði leitaði ég uppi þátttakendalista og fór nokkuð vel í gegnum þá. Ástæða þess var margendurtekin reynsla mín af stórum og uppskrúfuðum ráðstefnum. Umfjöllunarefni þeirra – t.d. sjávarútvegsmál – eru undarlega oft í höndum aðila sem hvorki hafa lifibrauð né, að því er virðist, hæfni til að fjalla um viðkomandi málefni.
Rio listarnir báru þess merki að þarna yrðu þeir fáir sem ekki hefðu einhvern hluta stafrófsins fyrir aftan nafnið sitt. Ég sá heldur engan fiskimann skráðan til leiks. Mér fannst einboðið að mæta á svæðið.
,,Samtal
Sá þáttur ráðstefnunnar sem ég tók þátt í var svokallaður ‘Dialogue’ – „samtalshluti hennar. Í honum var fjöldi funda sem byggðist upp á 10 manna pallborðum, þar sem hverjum þátttakanda var boðið að halda stutt erindi í upphafi. Pallborðið „mitt bar yfirskriftina „Höfin, sjálfbær þróun’.
Fundurinn fór fram í sal sem tók u.þ.b. 1000 manns og var hann mestallan tímann þéttsetinn. 
Við í pallborðinu hófum fundinn með stuttum erindum. Í mínu máli lagði ég áherslu á mikilvægi smábátaútgerðarinnar í minni framtíðarsýn á sjávarútveginn. Smábátaútgerðin eyðir minna eldsneyti, veiðir oftast með skaðlitlum veiðarfærum, skapar  mikla atvinnu án þess að fórna eðlilegri kröfu um hagnað til viðhalds og endurnýjunar og bátarnir eru yfirleitt smíðaðir heima fyrir. Síðast en ekki síst styður hún við hin litlu samfélögin á ströndinni.
Síðasta tækifærið 
Flestir hinna frummælendanna dvöldu við önnur sjónarhorn, en þar kom að einn þeirra steig fram eftir kynningu fundarstjóra sem var þess eðlis að maður átti alveg eins von á því að viðkomandi kæmi fljúgandi inn á sviðið – á eigin vængjum.
Ræðumaðurinn  hóf mál sitt reyndar þannig að það hefði verið í stíl: að hann „kæmi frá öðrum heimi þar sem „höfin voru hrein og full af fiski, þar sem skóglendið var margfalt á við það sem nú væri og annað í þessum dúr.
Frummælandinn var að vísa til þess hvernig ástand jarðar var fyrir nokkrum áratugum síðan. 
Lausnin lá fyrir: „Í dag vitum við svo mikið sem við vissum ekki áður. Í dag vitum við hvað þarf að gera, en ef við gerum það ekki núna, þá erum við að missa af síðasta tækifærinu.
Ógnvekjandi umræða
Ég held að ég hafi stunið óþarflega hátt þegar þessari heimsendaspá hafði verið skilað til áheyrenda, við dúndrandi lófatak.
Möntrurnar voru nú endurteknar nokkrum sinnum með grátklökkva í röddinni.
„Ef við gerum ekkert núna…’.
Ég hef í lífinu ekki glímt við margar gerðir af hræðslu. Ég er reyndar alveg hrikalega lofthræddur og svo er mér bölvanlega við bakteríur. Þar með er það svona nokkurn veginn upptalið. Ég hef t.d. ekkert sérstakar áhyggjur af  svartagallsrausi. En ég ætla að viðurkenna það fúslega, að ég er alvarlega skelkaður við svona tal – þegar það kemur frá einstaklingi sem hefur jafn mikil áhrif og þessi. Áhrif í stofnunum, sjóðum og fjölmiðlum, áhrif sem ekki er hikað við að beita í nafni hinnar meintu heimsendahættu. Þar skipta fiskveiðar engu, eða eins og viðkomandi orðaði það: „smábátaveiðar GÆTU HUGSANLEGA haft eitthvert hlutverk í framtíðinni.
Engin hönd á loft
Nokkru eftir að frummælendur höfðu lokið sínum erindum var opnað á spurningar úr sal. Þær skorti ekki og ég notaði því eitt tækifærið og spurði salinn hvort ég mætti ekki snúa taflinu við eina örstutta stund, þ.e. að ég legði eina spurningu fyrir salinn. Því var vel tekið og því spurði ég:
„Hversu margir hér í salnum eru á þessari stundu atvinnufiskimenn. Ég bið þá vinsamlegast að rétta upp hönd.
Það fór kliður um salinn og höfuð hringsnerust um allt í leit að fiskimönnunum. Það var jú verið að ræða um þeirra framtíð og örlög.
Það er skemmst frá því að segja að engin hönd fór á loft. Á stærstu umhverfisráðstefnu sem nokkru sinni hefur verið haldin og fjallaði mikið um þátt hafsins, hafði fiskimönnunum ekki verið boðið. Þvílík skömm!
Skammt á veg komin
En þrátt fyrir þessa uppákomu og vafalaust aðrar sambærilegar í framtíðinni, trúi ég jafn staðfastlega á samstarf og dreifingu upplýsinga. En almáttugur minn hvað við virðumst stundum vera skammt á veg komin.
Höfundur er formaður Landssambands smábátaeigenda.