Á fundi Hafrannsóknastofnunarinnar um haf- og fiskirannsóknir sem haldinn var í Vestmannaeyjum 19. júní sl. spunnust m.a. umræður um aflaráðgjöf stofnunarinnar í ýsu.
Fram kom hjá forstjóra stofnunarinnar, Jóhanni Sigurjónssyni, að ráðgjöfin tæki mikið mið af því að mælingar stofnunarinnar sýna að fjórir slakir árgangar komi inní veiðina á næstu árum. Það sé ávísun á minnkandi afla.
Fundarmenn voru ekki allskostar sammála þessu og vildu sumir að stofnunin færi aftur yfir ráðgjöf á ýsustofninum þar sem hún væri ekki í neinu samræmi við núverandi ástand. Þá var mikið rætt um hugsanlegar skýringar á arfaslakri nýliðun úr mjög stórum hrygningarstofni.