Dagana 18. og 19. júlí sl. hélt stjórn LS sinn árlega sumarfund. Að þessu sinni var hann haldinn á Höfn í Hornafirði. Fjölmörg mál voru til umfjöllunar, en í lok fundar samþykkti stjórnin einróma eftirfarandi ályktun:
Stjórnarfundur Landssambands smábátaeigenda (LS)
haldinn dagana 18. og 19. júlí 2012 ályktar eftirfarandi:
Enn
eitt fiskveiðiár í starfi sjávarútvegsins er að líða undir lok, enn eitt árið
þar sem þeir sem á miðunum starfa urðu þess áþreifanlega varir að ástand helstu
nytjastofna er gott og þá sérstaklega þorskstofnsins.
Lífríki
hafsins blómstrar sem sjaldnast fyrr og jafnvel mestu reynsluboltarnir í
fiskveiðunum undrast hið gríðarlega magn sem náttúran hefur framleitt og
framleiðir af gæðum sínum.
Þessar
staðreyndir eiga hinsvegar hvorki upp á pallborðið hjá vísindamönnum né
yfirvöldum. Síðasta úthlutun í
veiðiheimildum helstu nytjastofna á Íslandsmiðum, sem í fæstu víkur frá
tillögum Hafrannsóknastofnunarinnar, er nýjasta dæmið þar um. Eftir þriggja áratuga „vísindalega stjórnun situr
þjóðin uppi með þá staðreynd að veiðar í þorski næsta árið verða aðeins 9 sætum
fyrir ofan botninn hvað þær varðar síðan 1952.
Þetta
er með öllu óásættanlegt og er ekkert annað en sorglegur áfellisdómur yfir
ríkjandi aðferðafræði fiskifræðinnar og vísindalegum rétttrúnaði yfirvalda.
Barentshafið
átti á sínum tíma að vera vítið til varnaðar: þar stunduðu menn gegndarlausa
ofveiði og færu í engu eftir tillögum vísindamanna um heildarveiði. Í dag
blasir við að á næsta ári verður þar gefinn út stærsti kvóti í sögu þorskveiða
í heiminum.
Kanada
átti að vera fyrirmyndin: Þar hafa beinar þorskveiðar í atvinnuskyni verið
bannaðar síðan 1992.
Spurningin
sem blasir við er þessi: hvað þarf til að opna augu stjórnvalda og fræðimanna
svo þeir átti sig á því að á Islandi hefur hin „vísindalega stjórnun veiðanna
mistekist hrapallega? Fyrir fáeinum
dögum blasti við fyrirsögn þar sem Hafrannsóknastofnunin „útilokar ekki
veiðistopp í ýsu, þar sem hún telur stofninn við „hættumörk. Samt hefur veiðin að jafnaði verið
innan við 5% frá ráðleggingum hennar síðan 1984, sem er langt innan
skekkjumarka sem hún sjálf segir vera í mælingum sínum.
Í
þessari sorgarsögu er að finna tilraunir fræðimanna til að dikta upp töfraorð
sem annað hvort hafa átt að skýra óskiljanlegar uppákomur eða vera ígildi
allsherjarlausnar fyrir framtíðina. Mönnum er enn í fersku minni þegar
Hafrannsóknastofnunin bar á borð orðið „veiðanleiki til að útskýra að öðrum
kosti fullkomlega óskiljanlega mokveiði, miðað við stofnstærðamælingar sem áttu að sýna söguleg lágmörk þorskstofnsins.
Nýjasta
töfraorðið er „aflaregla. Stjórn LS
lýsir miklum áhyggjum yfir þeim fyrirætlunum að beita slíkri aðferðafræði við
fiskveiðistjórnun. Slík aðferð auðveldar
reyndar ýmislegt fyrir Hafrannsóknastofnunina: eftirleiðis þarf ekkert að tala
við og hvað þá að taka mark á skoðunum fiskimanna, eins og fögur fyrirheit hafa
ítrekað verið gefin um, sérstaklega af hendi stjórnvalda og meitlað í stein í
sjálfri samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnarflokkanna.
Eftirfarandi
er t.d. að finna í skýrslu samráðsvettvangs sjávarútvegsráðuneytisins:
„Nauðsynlegt er að
rannsaka sérstaklega hvað felst í fiskifræði sjómannsins og mynda sterkari
tengsl hennar við vísindarannsóknir.
Samvinna sjómanna og fiskifræðinga getur ekki bara skilað nákvæmari
upplýsingum heldur er einnig um að ræða mikilvægan þátt í að bæta samskipti,
auka skilning og efla samstöðu þessara aðila.
En
þetta vegur kannski léttast hvað þetta mál varðar. Aflaregla er enn eitt skrefið í þá átt að
„reiknilíkanavæða fiskveiðiráðgjöfina.
Fiskveiðistjórnun á að byggjast á líffræðilegri stjórnun. Reiknilíkön eru steindauð fyrirbrigði.
Þessar
fyrirætlanir lítur stjórn LS á sem fullkominn flótta fiskifræðinga og stjórnvalda
frá þeirri staðreynd að forsendur fiskveiðistjórnunar eru af margvíslegum toga:
líffræðilegum, vistfræðilegum, hagfræðilegum og félagslegum.
Notkun
aflareglu er hliðstætt því að bændur létu hlutkesti ráða við slátrun bústofns
síns, en notuðu hvorki þekkingu sína né vit til að velja og hafna.
Stjórn
LS lýsir furðu sinni á tillögugleði Hafrannsóknastofnunarinnar varðandi veiðar
á grásleppu. Fáar tegundir hafa verið rannsakaðar minna en grásleppan og það
litla sem bæst hefur við af þekkingu um hana undanfarin ár hefur frekar vakið
spurningar en svarað þeim. Það verður því að teljast ótrúleg bíræfni að telja
sig í stakk búin til að farga fyrirkomulagi við þessar veiðar sem reynst hefur
ágætlega í yfir hálfa öld.
Hér
með skorar stjórn LS á stjórnvöld að innleiða þegar í stað raunverulega
samkeppni í fræðigreinina og afnema það pólitíska vald sem stofnuninni hefur
hægt og bítandi verið fært á hendur undanfarna áratugi, algerlega óverðskuldað.
—
Alþingi
samþykkti fyrir stuttu lög um veiðigjöld.
Stjórn
LS ítrekar að smábátaeigendur eru stoltir af því að greiða sanngjarnan skatt
eða gjald til þjóðarinnar í skiptum fyrir þann afnotarétt sem þeir fá í formi
veiðiheimilda. Smábátaeigendur hafa alla
tíð litið á fiskveiðiauðlindina sem sameign íslensku þjóðarinnar og ítrekar þá afstöðu.
Hin
nýsettu lög ganga hinsvegar allt of langt og það mun sýna sig innan örfárra ára,
verði ekkert að gert. Þó vissulega hafi
verið gerðar breytingar frá upphaflegum fyrirætlunum, þá er aðferðafræðin með
öllu óboðleg: þannig skulu smábátaeigendur greiða gjald sem tekur mið af afkomu
fyrirtækja í greininni fyrir tveimur árum, fyrirtækja sem eiga lítið skylt við
rekstur smábáta og geta þessvegna verið horfin af vettvangi þegar skatturinn gjaldfellur.
LS
hefur aldrei vikið sér undan því að reyna til ítrasta að ná ásættanlegum
niðurstöðum hvað þessi mál sem önnur varðar.
En til þess að svo megi verða, þarf vilja beggja.
Höfn
í Hornafirði, 19. júlí 2012 Stjórn
Landssambands smábátaeigenda