Lýst er eftir skipsáhöfn, með fulla vasa af seðlum

Það er við hæfi í vikulok að segja frá einhverju „ud av de vanlige.

Maður er nefndur Cairo Laguna, borinn og barnfæddur í Nikvaragua.  Hann er um miðjan aldur og hefur gert út 12 metra bát frá vesturströndinni til margra ára. Báturinn ber hið sjaldgæfa nafn „Israel, sérstaklega sé heimaland hans haft í huga.
 
Miðin eru langt undan landi og ekki óalgengt að fara þurfi 100-150 mílur á haf út. Aðal tegundirnar eru túnfiskur, sverðfiskur og aðrar sambærilegar tegundir. Veiðarfærin eru stangir, aðallega með gervibeitum. Algengt er að útivistin, eftir að á miðin er komið, sé 5-7 dagar. Verðið á þessum tegundum er gott og því þarf ekki „marga í mílljónina frekar en í tonnið á Íslandi á góðri vetrarvertíð.
Í fyrra tók Cairo bátinn í slipp og lét taka hann „í nefið, skipt um vél og hvaðeina.  Leit út eins og nýr eftir klössun. 
Algeng áhöfn við þessar veiðar er 5 manns.  Cairo réð sér mannskap, báturinn gerður klár með kost og reiða og á hafið lagði hin nýráðna áhöfn á hinum nýstandsetta báti. Vertíðin var í fullum gangi og veiðin góð, en misjöfn sem gengur.
Sjö dögum seinna hafði skipstjórinn samband við Cairo og tilkynnti honum komu til hafnar. Það var þungt hljóð í kapteininum með aflabrögðin. Cairo tók á móti bátnum og allt var í stakasta lagi og öll áhöfnin lét vel af öllum aðbúnaði um borð.  Það var hinsvegar öllu verra, að engan fiskinn höfðu þeir fundið.  Þetta þótti eigandanum skratti skítt, en lítið við því að gera. Cairo undraðist hinsvegar hversu létt var yfir mannskapnum þrátt fyrir þessar hrakfarir.  Stuttu síðar sagði áhöfnin upp og varð Cairo að ráða sér nýja í hennar stað.
Eftir það gengu veiðarnar alveg bærilega og útgerðin lifir enn í dag.  
Í vor átti Cairo svo leið nyrst á vesturströndina, í allt öðrum erindagerðum en hvað útgerðina varðaði. En eins og öllum smábátaeigendum er tamt, hvar sem þeir eru staddir, endaði hann niður á bryggju á spjalli við karlana um fiskerí og tíðarfar. 
Eftir talsvert spjall kemur fram hjá einum fiskimannanna, að hann rámaði í að bátur, með þessu sérkennilega nafni, Israel, hefði árinu áður landað miklum afla þarna í höfninni og gert mjög góða sölu. 
Runnu nú rúmlega tvær grímur á Cairo og fór hann að grennslast fyrir um sannleiksgildi þessa.  Eftir einhverja leit hafði hann upp á fiskkaupanda sem mundi vel eftir bátnum, aflanum og verðinu sem hann hafði greitt. Allt var þetta staðgreitt og nótum ekki til að dreifa.
Lá nú málið ljóst fyrir og brúnaþungur mjög hélt Cairo til baka og hefur reynt að hafa uppá fyrrverandi skipstjóranum síðan, án árangurs. Hinsvegar þykir ljóst hvers vegna ekki lá svo mjög illa á áhöfninni við heimkomuna forðum!  
Screen Shot 2012-07-27 at 5.04.39 PM.png
Áþekkur bátur og „Israel.