Verðmætasti makríllinn sem veiðist hér við land er veiddur á króka af smábátum. Gæði makrílsins eru meiri en þegar hann er veiddur í troll sem skilar sér í hærra verði.
Nokkuð er í land að krókabátar flykkist á makrílveiðar þar sem veiðarnar eru enn á tilraunastigi og stofnkostnaður mikill.
Afli á yfirstandandi vertíð sýnir að þróunin er í rétta átt. Nú þegar um mánuður er eftir af vertíðinni er búið að veiða 400 tonn sem er þriðjungi meira en veitt var á allri vertíðinni í fyrra.
Alls stunda 12 bátar krókaveiðar á makríl. Krókaaflamarksbáturinn Sæhamar frá Rifi hefur veitt mest, 83 tonn.