Mikið af dauðri síld í Breiðafirði

Trillukarlar, aðrir sæfarendur og heimamenn á Snæfellsnesi hafa margir hverjir efasemdir um að raunhæft sé að sleppa uppsjávarflotanum lausum til síldveiða í innanverðum Breiðafirði á væntanlegri vertíð fyrr en búið er að rannsaka ástand miðanna og fyrirbyggja umhverfisslys.   Þeir segja gríðarlegt magn af dauðri síld hafa hrannast upp þegar veiðar voru stundaðar í fyrra, með tilheyrandi grútarlagi á botninum.  Þegar veiðarnar fara af stað á haustdögum megi búast við að þessi rotnunarmassi fylgi með við veiðarnar sem kalli á brottkast.   Þannig yrði verðmætum kastað á glæ samfara hækkun í mengunarpottinum.  
P13-06-12_21.54.jpeg
Rannsókn á botni helstu veiðisvæðanna verði því að fara fram áður en veiðar hefjast þannig að hægt sé að loka þeim svæðum þar sem þetta ástand varir.
Skiptar skoðanir eru um orsakir fyrir þessari dauðu síld. Viðmælendur heimasíðunnar telja að þarna sé á ferðinni leyfar frá síðustu vertíð þegar einstök skip slepptu niður þúsundum tonna eftir að fyllt hafði verið í allar smugur skipanna.   Sömu viðmælendur bæta því við að Hafrannsóknastofnunin sé á öðru máli, segir þetta vera sýkta síld sem drepist hafi af völdum hennar.
P20-06-12_12.07[2].jpeg
Samkvæmt framansögðu er full ástæða til að hefja ekki veiðar fyrr en þessar staðhæfingar hafa verið staðreyndar með skoðunum á botninum og eftirlit með veiðunum verði tryggt.