Línuveiðimenn á smábátum – og vafalaust fleiri – hafa undanfarna mánuði orðið varir við mikla ýsugengd á grunnslóð, víða við landið. Þetta kemur svo sem ekki á óvart, því það vill fylgjast að, að Hafró tilkynni um hræðilegt ástand einstakra stofna og í kjölfarið er ekki friður fyrir viðkomandi kvikindum á miðunum.
Í vorralli Hafró mældi stofnunin svo alvarlegt ástand ýsustofnsins, að hugsanlegt var, að hennar mati að stöðva þyrfti ýsuveiðar með öllu. Ekki fylgdu leiðbeiningar þessum hugmyndum – t.d. hvernig ætti að stunda aðrar veiðar án þess að ýsan slæddist með í stórum stíl. Það hjálpar að vísu ef slíkum meðafla er einfaldlega hent í sjóinn, því þá kemur hann hvergi fram í gögnum og þar af leiðandi ekki til, samkvæmt reiknimódelum.
Nýjasta dæmið um áhyggjur manna af þeirri stöðu sem upp er komin vegna lítilla veiðiheimilda í ýsu, er bókun af fundi bæjarstjórnar Ísafjarðabæjar, frá í gær, 20. september. Þar segir orðrétt:
„Staðan er þannig í dag, þann 20. september að bátar og skip sem stunda róðra á grunnslóð út af Vestfjörðum eru mörg hver að komast í vandræði vegna mikillar ýsugegndar á miðunum.
Þó reynt sé að sneiða fram hjá ýsunni er hún bókstaflega út um allt. Ljóst má vera að eitthvað mikið er að í ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar varðandi ástand ýsustofnsins. Því fara undirritaðir bæjarfulltrúar fram á að ráðherra sjávarútvegsmála láti tafarlaust fara yfir ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar varðandi mælingar þeirra á ýsustofninum og að samráð verði haft við sjómenn í því sambandi.
Bókunin var lögð fram af Kristjáni Andra Guðjónssyni, en auk hans rituðu undir hana þau Jóna Benediktsdóttir, Arna Lára Jónsdóttir, Lína Björg Tryggvadóttir, Albertína Elíasdóttir, Eiríkur Finnur Greipsson, Steinþór Bragason, Kristín Hálfdánsdóttir og Gísli H. Halldórsson.
Beinagrind af ýsu. Myndin lýsir ágætlega hvaða ástand Hafrannsóknastofnunin telur að sé á stofninum.