Gríðarlega jákvæð áhrif

Í Fiskifréttum sem út komu 20. september sl. er grein eftir Örn Pálsson.  Greinin fjallar um strandveiðar og er hér birt í heild sinni.
„Strandveiðar sanna gildi sitt – Gríðarlega jákvæð áhrif
Strandveiðar eru komnar til að vera. Fjórða tímabili þeirra lauk 31. ágúst sl.  Metþátttaka var í veiðunum í ár, en alls tóku 759 bátar þátt í þeim. Heildarafli varð 8.749 tonn, þar af 7.420 tonn þorskur. Gera má ráð fyrir að á annað þúsund sjómenn hafi komið að veiðunum, sem samsvarar áhöfnum hundrað Pálum Pálssonum, svo dæmi sé tekið.  Það er þó eðlismunur á, þar sem útgerð strandveiðibáta nær til flestra útgerðarstaða landsins og eflir þannig mannlíf, atvinnu og þjónustu.  Þá hefur eftir því verið tekið að á ný hefur færst líf 

ÖP 09-2009 A.jpgyfir hafnarsvæði þessara staða, sem legið hafa í dvala í mörg ár. Góð umsýsla er hjá hinu opinbera við útgerð strandveiðibáta. Sú þjónusta er endurgoldin með greiðslu á veiðileyfi sem er árlegt gjald, 50 þúsund krónur, og leggur sig því samanlagt á 38 milljónir.


Eftirsóttur afli
Aflaverðmæti strandveiðibáta árið 2012 var nálægt 2,7 milljörðum króna.  Afli þeirra er eftirsóttur og er afar gott innlegg til vinnslunnar yfir sumartímann þegar fjölmargar útgerðir hafa lokið við veiðar á sínum kvótum. Það hefur vakið athygli hversu vandaður frágangur á afla strandveiðibáta er. Þéttur og mikill áróður hefur skilað sér í vakningu hjá sjómönnum um að skila aflanum óaðfinnanlegum af sér. Þeir gera sér grein fyrir að yfir sumarið er hráefnið vandmeðfarið, blóðgun og kæling er til fyrirmyndar.

Jákvætt mannlíf
Þjónustuaðilar í hinum dreifðu byggðum landsins hafa tekið útgerðum strandveiðibáta fagnandi. Smiðjur, verslanir og veitingastaðir, svo eitthvað sé nefnt, njóta nærveru þeirra. Hafnirnar iða af lífi og draga til sín jafn heima- sem aðkomumenn sem fá þannig jákvæðari mynd af viðkomandi stað.  Mæling á arðsemi nær þannig til fleiri þátta en milljóna í kassa, hún skilar sér í fögru og jákvæðu mannlífi sem er ómetanlegt fyrir viðkomandi staði, sem strandveiðarnar eiga ríkan þátt í. Það er því mikið fagnaðarefni að sjávarauðlindin nái að skapa þau skilyrði að hér sé jafn fjölbreytt útgerðarflóra og nú er. Fjöldi skipa sem spanna allt frá litlum jullum til risastórra verksmiðjuskipa.  
Ekkert bendir til að stjórnvöld né stjórnmálaflokkar hafi í huga að breyta þessu mynstri. Strandveiðarnar hafa fest sig í sessi og almenn ánægja ríkir um þær.  Helst eru það strandveiðimenn sjálfir sem vilja breytingar og er það í formi aukins rýmis við veiðarnar.
Tillögur til breytinga
Hjá Landssambandi smábátaeigenda er unnið að breytingum eftir samþykkt nefndar innan félagsins um frjálsar handfæraveiðar. Þær eru fólgnar í að afli strandveiðibáta komi ekki til frádráttar á aflamarki aflahlutdeildarhafa. Við úthlutun á yfirstandandi fiskveiðiári er 2.000 tonna minni frádráttur í þorski en var á síðasta fiskveiðiári. Stefnan er sett á að afli strandveiðibáta verði hrein viðbót við úthlutun. Sókn þeirra takmarkist af fiskgengd á grunnslóð, svæðistakmörkunum veiðanna, aðeins sé leyfilegt að róa 4 daga í viku á tímabilinu maí til og með ágúst, hámarksafli í hverjum róðri verði 650 þorskígildi, hver róður taki ekki lengri tíma en 14 klukkustundir og eigandinn verði að vera í áhöfn bátsins. Á þennan hátt verður fyrirkomulagið mannlegra.  Ekki þarf að sperra sig til róðra á fyrstu dögum mánaðarins áður en „skammturinn klárast eins og nú er, heldur er hægt að ráða því sjálfur hvaða mánu-, þriðju-, miðviku- og fimmtudaga róið er. Það er skoðun mín að þetta fyrirkomulag mundi ekki leiða til mikið meiri afla en nú er. Hins vegar yrði fyrirkomulagið til þess að meiri sátt yrði um veiðarnar.
Liður í aukinni sátt
Einn er sá þáttur strandveiðikerfisins sem hér hefur ekki verið minnst á. Það er hversu fækkað hefur í þeim hópi sem ráðist hefur á fiskveiðistjórnunarkerfið og fundið því allt til foráttu. Stór hópur þessara aðila og fjöldi þeim tengdur hefur fengið kröfur sínar uppfylltar með strandveiðum, þ.e. að fara á sjó og selja aflann á markaði, án þess að þurfa að leigja veiðiheimildir frá þeim sem þeir kölluðu „kvótagreifa.   Margir líta því á strandveiðar sem lið í að auka sátt um núverandi stjórnkerfi fiskveiða.
Höfundur er framkvæmdastjóri Landssambands smábátaeigenda