Aðalfundur Smábátafélagsins Reykjaness var haldinn í Grindavík 29. september. Góð mæting var á fundinn og fjölmörg málefni rædd. Meðal þeirra voru veiðar krókabáta umfram þá hlutdeild sem þeim er ákvarðað í lögum um stjórn fiskveiða. Vakin var athygli á því á fundinum að ýsuafli krókaaflamarksbáta hefði verið frá rúmum 22% upp í 25,1% af heildarafla hennar undanfarin fjögur fiskveiðiár. Það væri því deginum ljósar að vitlaust væri gefið í ýsunni þegar ákvörðuð hlutdeild þeirra væri aðeins 15%. Mismuninn hefðu krókabátar leigt til sín frá stórskipaflotanum.
Smábátafélagið Reykjanes vill að endurskoðuð verði hlutdeild krókaaflamarksbáta í ýsu, löngu, keilu og karfa með hliðsjón að veiðum þeirra undanfarin ár.
Formaður Reykjaness er Halldór Ármannsson.