Um hádegisbilið í dag lauk talningu atkvæða um kjarasamninga LS og sjómannasamtakanna.
Niðurstöður voru ótvíræðar. 74% þeirra félagsmanna LS sem greiddu atkvæði samþykktu samninginn og sjómannamegin voru það 64% sem samþykktu.
Á kjörskrá LS voru eigendur 1071 báts og atkvæði greiddu 267. Kosningaþátttakan var því 25%.
Þetta er í fyrsta skipti sem samþykktur er kjarasamningur fyrir smabátaflotann á landsvísu. Ekki eru mörg ár síðan að sjósókn á smábátum var nánast eingöngu stunduð sem einmenningssjósókn og þá yfirleitt af eigendunum sjálfum. Þetta hefur breyst verulega undanfarin ár.
Samþykkt kjarasamninganna er stór áfangi í félagsstarfi Landssambands smábátaeigenda og félagsmönnum óskað til hamingju með daginn.