Grásleppustofninn að braggast í Noregi

Grásleppuveiðar hafa átt undir högg að sækja í Noregi undanfarin ár.  Á siðustu vertíð tóku aðeins 128 bátar þátt í veiðunum, en 2003 voru þeir 729.  Samfara fækkun báta hefur veiði dregist saman.  2006 skilaði vertíðin 5.300 tunnum af hrognum á móti aðeins 1.100 tunnum nú í ár.
Norska Hafrannsóknastofnunin metur ástand stofnsins þannig að hann þoli sókn 300 báta og heildarveiði fari ekki yfir 400 tonn af hrognum.  Á grundvelli þess verður aflahámark á hvern bát 3000 kg (20 tunnur) af óverkuðum hrognum á næstu vertíð.
Eftir því sem næst verður komist eru litlar líkur á að þátttaka aukist við þessi góðu tíðindi stofnunarinnar.  Sjómenn hafa verið að færa sig í auknum mæli yfir í þorskveiðar og þá hefur makríllinn einnig gefið þeim betri tekjur en grásleppan hefur gert.  Fátt bendir til að breyting verði þar á.
Grásleppa.jpg