Aðalfundur Alþjóðasamtaka strandveiðimanna og fiskverkafólks 2012

Í gær hófst aðalfundur Alþjóðasamtaka strandveiðimanna og fiskverkafólks (WFF – World Forum of Fish Harvesters and Fish Workers) í Kampala í Uganda. Fundurinn hófst með setningarathöfn þar sem m.a. ráðherra byggðamála, Rosemary Najjemba, ávarpaði fundinn og fagnaði því að honum skildi valinn staður í Uganda.

Fundinn sækja fulltrúar frá 25 löndum ásamt gestum frá stofnunum á borð við FAO.
Fundinn ávörpuðu síðan formenn WFF, Margaret Nakato frá Uganda og Arthur Bogason, formaður Landssambands smábátaeigenda.

Að lokinni setningarathöfn var fundarmönnum boðið í ferð niður að Viktoríuvatni, næst stærsta stöðuvatni heims. Þar var bæði skoðuð fiskverkun sem og ein af löndunarhöfnunum á svæðinu. Í lokin söfnuðust fiskimenn af ströndinni saman við fulltrúa aðalfundarins og málin rædd fram og til baka um stöðu smábátaveiðimanna, þar á ströndinni sem og annars staðar í heiminum.
Í dag hefst vinnudagskrá fundarins sem lýkur á fimmtudagskvöld. Fjölmörg stór mál eru til umfjöllunar, t.d. drög að alþjóðlegum leiðbeiningarreglum fyrir sjálfbærar smábátaveiðar sem FAO hefur unnið að sl. 2 ár í samvinnu við WFF og fleiri alþjóðleg samtök, alþjóðlegt merki fyrir smábátaveiðar, sem er nálægt því að vera tilbúið til að setja í umferð, ásamt fjölmörgum öðrum málum.