Snæfell – félag smábátaeigenda á Snæfellsnesi – efndi til funda með félagsmönnum og fulltrúum Hafrannsóknastofnunarinnar sl. föstudag. Tilefni fundanna var að efla samstarf og skilning sjómanna og fiskifræðinga á viðhorfum og verkefnum hvers annars.
Í frétt á heimasíðu Hafrannsóknastofnunarinnar kemur m.a. fram að „í stað hefðbundins fyrirlestrarhalds fiskifræðinga, var ferðin skipulögð sérstaklega með í huga að sjómenn og fiskifræðingar ræddu saman, að sjómenn miðluðu sinni þekkingu til fiskifræðinga ekki síður en fræðingarnir kynntu sínar rannsóknaniðurstöður eins og venja er. Fundir voru fyrirfram auglýstir frá morgni til kvölds á Hellissandi, Rifi, Ólafsvík, Grundarfirði og Stykkishólmi.
Að sögn stjórnarmanna Snæfells voru fundirnir vel heppnaðir og almenn ánægja þátttakenda með framtak félagsins.