Alþjóðadagur strandveiðimanna og fiskverkafólks

Þrátt fyrir heiðarlegar tilraunir til að koma frétt frá Uganda inn á síðuna í gær í tilefni þess að þá var alþjóðadagur strandveiðimanna og fiskverkafólks, tókst það ekki. 

Eins og fram kom í frétt hér á síðunni í fyrradag stendur yfir aðalfundur Alþjóðasamtaka strandveiðimanna og fiskverkafólks (WFF) í Kampala í Uganda. Í gær var deginum fagnað með víða um heim, aðallega þó í Asíu og Afríku. 
Fundarmenn WFF fögnuðu deginum með því að gera hlé á fundi og halda niður í höfnina Gaba, sem er stutt utan borgarinnar. Í Gaba er fjöldi fiskimanna og þorpið ofan hafnarinnar endurspeglar aðstæður sem svo gríðarlega margir strandveiðimenn búa við í heiminum, þ.e. fátækt og lífsgæði sem vart nokkur óskar sér. 
Safnast var saman á stærstu bryggjunni á staðnum og þar var sungið, dansað og ræður fluttar, misgáfulegar eins og gengur. Þrátt fyrir dapurlegar aðstæður kann fólk að gleðjast og létta sér lund. Þá var þetta ekki síður hátíð fyrir börnin á staðnum, sem tóku þátt í söng og dansi af ósvikinni innlifun.
Af ókunnum ástæðum kemur tæknin í veg fyrir að myndir hlaðist niður með þessum texta og verða þær því að bíða betri tíma. 
Aðalfundi WFF lýkur seinnipartinn í dag. Kosningar fóru fram nú fyrir hádegi. Arthur Bogason, sem verið hefur annar formaður samtakanna frá 2004 gaf ekki kost á sér til áframhaldandi formennsku. Hinir nýju formenn WFF eru Cairo Laguna frá Nikvaragva og Edithrudith Luwanga frá Tansaníu. Framkvæmdastjóri verður áfram Margaret Nakato frá Uganda, þar sem höfustöðvar samtakanna verða áfram. 
Framkvæmdastjórn samtakanna var og kosin nú fyrir hádegið og hana skipa formennirnir tveir, framkvæmdastjóri, Pierre Verrault frá Kanada og Arthur Bogason.