Ýsuskortur fitar VS sjóðinn

Ein birtingarmyndin af vandræðum sjómanna varðandi skort á veiðiheimildum í ýsu er gríðarleg aukning á VS-afla (Hafróaflinn) í tegundinni.  Á fyrsta fiskveiðiársfjórðungnum þrefaldaðist VS-afli í ýsu frá því í fyrra.  Það sýnir meira en allt annað hvílík vandræði menn eru í, þar sem útgerðin fær aðeins 20% í sinn hlut sem skiptist milli útgerðar og sjómanna samkvæmt samningi þar um.   Afgangurinn að frádregnum sölukostnaði rennur í Verkefnasjóð sjávarútvegsins (VS).
Frá og með sl. fiskveiðiári er VS-afli reiknaður fyrir hvern fiskveiðiársfjórðung.  Heimildin nær til 5% af heildarafla viðkomandi báts innan hvers tímabils og er bundin eftirfarandi skilyrðum:
Aflanum sé haldið aðskildum frá öðrum afla skipsins og hann veginn og skráður sérstaklega.
Aflinn sé seldur á uppboði á viðurkenndum uppboðsmarkaði fyrir sjávarafla og andvirði hans renni til Verkefnasjóðs sjávarútvegsins sbr. lög nr. 37/1992, með síðari breytingum.
 
Í svari sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra 16. febr. sl. við fyrirspurn Ásbjörns Óttarssonar alþingismanns (D) um aflamagn og tekjur af VS-afla kemur fram að tekjur ríkisins eru verulegar af þessum 5%.  
  • 2009 562 milljónir
  • 2010 800 milljónir
  • 2011 516 milljónir (janúar – nóvember)    Samtals:  1,9 milljarðar
Þar kemur einnig fram að á framangreindu árabili fengu eftirtaldar stofnanir styrki úr Verkefnissjóðnum (ath. tölur rúnaðar af):
  • Hafrannsóknastofnunin 1.170 milljónir
  • Samkeppnisdeild VS    325 milljónir
  • AVS-rannsóknasjóður   158 milljónir
  • Fiskistofa              85 milljónir
  • Rannsóknaaðstaða     80 milljónir
  • Matís ohf.     70 milljónir
  • Veiðimálastofnun     56 milljónir