Aflaheimildir í ýsu voru ræddar á Alþingi í dag. Málshefjandi Ásbjörn Óttarsson ræddi nauðsyn þess að breyta fyrirkomulagi við að mæla stofnstærð fiskistofna. Hann sagði ýsuveiði á miðunum ekki í neinu samræmi við excelskjöl Hafrannsóknastofnunarinnar. Ásbjörn rakti nokkur dæmi þar um þ.s. m.a. kom fram að ýsuafli krókaaflamarksbáta væri nú kominn 16% umfram úthlutun.
Þá kom Ásbjörn inn árlegar spár Hafrannsóknastofnunarinnar ef veitt yrði umfram ráðgjöf hennar þá mundi það hafa alvarlegar afleiðinar fyrir stofninn. Ásbjörn tók fjögurra ára tímabil sem dæmi þ.s. veitt var 32% umfram ráðgjöf stofnunarinnar. Afleiðingarnar hefðu ekki verið minnkandi veiðistofn eins og spáð var heldur lagði Hafró til að ýsukvótinn yrði aukinn um 83%!
Steingrímur J. Sigfússon atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra sagði umhugsunarefni að veiðiálagið nú væri líklega um 60 – 70% á stöðum sem 30 – 40% stofnsins héldi sig. Þannig væri orðin mikil skekkja í því hvar veiðiheimildirnar væru og hvar ýsan héldi sig. Ráðherra greindi frá miklum mismun á nýtingu ýsunnar milli aflamarksskipa og krókaaflamarksbáta. Aflamarksskip hefðu veitt þriðjung af úthlutun sinni, á sama tíma og krókaaflamarksbátar væru búnir að veiða umfram það sem þeim hefði verið úthlutað.
Fram kom hjá Steingrími að krókaaflamarksbátar hefðu leigt til sín um 1.300 tonn það sem af væri fiskveiðiári. Miklir erfiðleikar blasi við krókaaflmarksbátum þar sem við þorskveiðar væri alltaf ýsa sem meðafli og sjaldnast undir 20% á svæðinu fyrir norðan Snæfellsnes og við Norðurland.
Hann sagði það mat ráðuneytins að 3.000 tonn þyrfti aukalega til krókaaflamarksbáta til að veiðar gætu gengið eðlilega fyrir sig fram á vorið. Úthlutun yrði að framkvæma með sértækum aðgerðum þannig að hún skilaði sér til þess hluta flotans sem væru í mestum vandræðum.
Steingrímur hét því að þessi mál yrðu skoðuð af fullri alvöru á næstunni.
Aðrir þingmenn sem tóku þátt í umræðunni voru:
Gunnar Bragi Sveinsson
Oddný G. Harðardóttir
Þór Saari
Einar K. Guðfinnsson
Ásmundur Einar Daðason