13. desember sl. var birt hér á heimasíðunni frétt um gríðarlegt magn síldar sem tekið hefði sér bólfestu inn í Kolgrafafirði. Áætlað magn þar væri á fjórðahundraðþúsund tonn. Þann dag tóku aðilar eftir óeðlilegri hegðun síldarinnar, hún virtist hreinlega synda upp í fjöru þar sem hún drapst.
Fyrirsögn þessarar fréttar var:
„Milljónatjón og umhverfisslys í uppsiglingu.
Því miður hefur þessi hástemmda fyrirsögn orðið að veruleika og eftir síðustu landtöku síldarinnar er svo komið að ríkisstjórnin hefur ákveðið að ræða þá grafalvarlegu stöðu sem upp er komin.
Að sögn Símonar Sturlusonar í Stykkishólmi sem fylgst hafa grannt með síldinni og atferli hennar segir hann margar kenningar vera á því hvers vegna hún hafi leitað undir brúna í Kolgrafafirði. Hann segir sína kenningu vera þá að síldin sé, nema síðursé, engin eftirbátur annarra lífvera að forðast hættur sem steðja að. Hann hefði tekið eftir því að fljótt eftir að uppsjávarflotinn hóf veiðar hefði komið mikil styggð að henni og hún flutt sig milli staða. Hímdi jafnvel undir kræklingalínunum hjá sér. Síldarskipstjórar hefðu veitt þessu athygli og hefði það truflað veiðar að þurfa að sigla um varhugaverð svæði í leit að síldinni. Hún leitaði hins vegar alveg inn fyrir Kóngsbakkaeyjar en þangað hefði flotinn hins vegar ekki komist.
Á því svæði virtist síldin ætla að dvelja, en þá tók ekki betra við, allt fylltist af hval og gamsaði hann hana í sig. Síldartorfan hafði hvergi skjól og hörfaði alltaf innar og grynnra þar til hún fann smuguna undir brúna í Kolgrafafirði. Svo einkennilegt sem það nú er virtist hvalurinn ekki fara undir brúna, kannski vegna nægs ætis fyrir utan.
Símon bætir því við að ætli ríkisstjórnin að koma í veg fyrir frekari síldardauða inni í Kolgrafafirði sé ekki um annað að ræða en ráðast gegn háhyrningnum og hrekja hann í burtu og losa þannig síldina út úr þeirri prísund sem hún sé í.