Það sem af er þessu fiskveiðiári hafa línuveiðar dagróðrabáta gengið brösuglega. Ástæðan er ekki aflaleysi, heldur að aflasamsetningin á miðunum er ekki í takt við veiðráðgjöf Hafrannsóknastofnunar og ákvörðun ráðherra um heildarafla. Við þorskveiðar hefur meðafli í ýsu verið mikill og virðist ekkert lát á því.
Vandamálið hefur í þrígang verið rætt á Alþingi og reglulega hefur málefnið ratað inn í fjölmiðla. 16. janúar sl. lýsti atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra því yfir á Alþingi að málið yrði skoðað að fullri alvöru á næstunni.
Landssamband smábátaeigenda hefur lýst eftir tillögum ráðherra, en einungis verið bent á að þær séu til meðferðar hjá atvinnuveganefnd og lúti að rýmkun á meðaflareglum. Í viðtali við Morgunblaðið 21. febrúar sl. staðfesti Lilja Rafney Magnúsdóttir starfandi formaður atvinnuveganefndar þetta. Í fréttinni, „Hjólin aftur farin að snúast á Drangsnesi, er einnig rætt við Óskar Torfason framkvæmdastjóra Drangs og Örn Pálsson framkvæmdastjóra LS.