Frumvarp til laga um stjórn fiskveiða var afgreitt úr atvinnuveganefnd Alþingis 28. febrúar sl. Álit meirihluta var birt í síðustu viku og var því búist við að málið yrði á dagskrá þingfundar í kjölfarið. Það hefur ekki gengið eftir og óvíst hvenær 2. umræða verður um frumvarpið.
Helstu breytingar sem meirihlutinn leggur til að verði gerðar á frumvarpinu í 2. umræðu eru:
1. Ráðherra sem fer með mál er varða sjávarútveg, fari með yfirstjórn mála samkvæmt lögum um stjórn fiskveiða.
2. Skylt verði við umsókn um veiðileyfi að framvísa upplýsingum um þá kjarasamninga sem áhöfn tekur kjör sín eftir.
3. Skerpt verði á heimild ráðherra um að krókaaflamarksbátar hafi rétt til veiða á hrognkelsum í net.
4. Starfsfólki í sjávarútvegi verði tryggt framlag til aukinnar menntunar.
5. Strandveiðibátum verður eins og verið hefur óheimilt að nýta afla- eða krókaaflamark til veiða á þeim tíma sem þeir hafa strandveiðileyfi.
6. Óháðum sérfræðingum verði falið að gera annars vegar úttekt á hagrænum og samfélagslegum áhrifum frumvarpsins frá lögtöku þess og hins vegar á hagrænum og samfélagslegum áhrifum fiskveiðistjórnakerfisins síðustu þrjá áratugi. Þá verði einnig gerð úttekt á áhrifum kerfisins á uppbyggingu nytjastofna við Íslandsstrendur síðustu þrjá áratugi.
7. Fallið er frá að lækka skel- og rækjubætur, þess í stað verði byggðakvóti lækkaður ennfrekar –
2013/2014 úr 5.031 tonnum í 4.751 tonn
2014/2015 úr 3.354 tonnum í 2.794 tonn
2015/2016 úr 3.354 tonnum í 2.513 tonn
Það kemur á óvart og veldur vonbrigðum að nefndin skuli færa veiðiheimildir úr byggðakvóta til rækju- og skelbóta. Í áliti nefndarinnar um þetta atriði segir eftirfarandi:
„Í umsögnum og á fundum nefndarinnar kom fram nokkur gagnrýni á áætlanir sem koma fram í frumvarpinu um lækkun bóta, sbr. 21. gr. frumvarpsins.
Að mati meiri hlutans hafa komið fram upplýsingar sem telja verður að leitt hafi í ljós að stíga verði varlega til jarðar í þessum efnum. Því leggur meiri hlutinn til að rækju- og skelbætur verði óbreyttar næstu ár en framlag til byggðakvóta lækki sem þessu nemur.
Umsögn LS
Í umsögn LS við frumvarpið voru gerðar fjölmargar athugasemdir. Því miður hefur meirihluti nefndarinnar ekki orðið við þeim sem eru LS gríðarleg vonbrigði. Meðal þeirra atriða sem félagið vildi sjá breytingu á eru:
- línuívilnun yrði aukin og mundi gilda fyrir alla dagróðrabáta
- innleidd yrði ívilnunarkerfi við úthlutun byggðakvóta
- strandveiðar yrðu án heildaraflaviðmiðunar og heimilt væri að róa 4 daga í viku á tímabilinu maí – ágúst
- áætlaður afli til strandveiða og línuívilnunar hefði ekki áhrif til lækkunar heildarafla til aflahlutdeildar
- ráðgefandi hópur sjómanna og útgerðarmanna kæmi að veiðiráðgjöf
- gerður yrði nýtingarsamningur til 25 ára í stað leyfis til 20 ára
- að fallið yrði frá umframskerðingum í þorski, ýsu, steinbít og ufsa
- ný lög kæmu til framkvæmda 1. sept. 2014.
Sjá nánar: