Auglýst hefur verið eftir aðilum sem áhuga hafa á að veiða túnfisk á sjóstöng og línu. Við veitingu leyfa er stuðst við reglugerð frá 14. mars sl. um veiðar á Austur-Atlantshafs bláuggatúnfiski.
Við lestur reglugerðarinnar er ljóst að afar strangar reglur gilda um veiðarnar.
Í umsókn til línuveiða þarf að tilfæra áætlun um veiðarnar, hvernig fiskiskipið verður útbúið til veiðar, áætlaðar löndunarhafnir og ráðstöfun afla. Þá þarf viðkomandi skip að vera sérstaklega útbúið til veiðanna. Fiskistofu er heimilt að veita leyfið til allt að þriggja ára.
Skip sem fá leyfi til sjóstangveiða er einungis heimilt að veiða einn fisk á dag og óheimilt er að fénýta hann.
Í reglugerðinni er sérstakt ákvæði um skyldu til sleppinga á lifandi afla. Þar verða menn að bera kennsl á: sjávarskjaldböku, sleggjuháf, hvítuggaháf, glyrnuskottháf og silkiháf. Fáist þessar tegundir sem meðafli er skylt að sleppa þeim.
Það sama gildir um túnfisk sem er undir 30 kg að þyngd.