Verkefni sumarþings

Eftirfarandi grein eftir Örn Pálsson birtist í Fiskifréttum 16. maí.  
Er öllum ljóst að afkoma einstakra
útgerðarhópa er mjög mismunandi
og því beinlínis rangt að láta þorsk-
ígildastuðlana vera ráðandi þátt í 
gjaldtökunni, þar sem þeir eru ekki
mælikvarði á hagnað


Verkefni sumarþings 

Mörg brýn mál bíða afgreiðslu Alþingis 
Margir smábátaeigendur horfa nú til sumarþings. Hér verða reifuð þrjú málefni sem höfundur telur þörf á að ræða á þinginu, auk þess sem minnt er á jafnmörg sem bíða.

Lög um veiðigjöld  
Í meðförum Alþingis á frumvarpi til laga um veiðigjöld vakti Landssamband smábátaeigenda (LS) athygli á nokkrum þáttum sem þar mættu betur fara.  Þeirra fremst var að sundurgreina sérstaka veiðigjaldið í meira en tvo gjaldflokka; botn- og uppsjávarfisk, þar sem gjaldið er eilítið hærra á hvert ígildi uppsjávarfisks.  LS hvatti atvinnuveganefnd Alþingis til að skoða afkomu smábátaútgerðarinnar sérstaklega til að sanngjarnt gjald fengist hjá þeim útgerðarflokki.
Þegar rykið sem þyrlað var upp í umræðunni um málefnið er sest er öllum ljóst að afkoma einstakra útgerðarhópa er mjög mismunandi og því beinlínis rangt að láta þorskígildisstuðlana vera ráðandi þátt í gjaldtökunni, þar sem þeir eru ekki mælikvarði á hagnað heldur útflutningsverðmæti hverrar tegundar miðað við þorsk.  
Þá vakti Brim hf. athygli á því í blaðaauglýsingum hvernig einstökum fyrirtækjum væri mismunað eftir því hvaða tegund vinnslu þau stunduðu og þar með „hvar framlegðin af viðkomandi fisktegund verður til.
Við endurskoðun laganna er nauðsynlegt að breytingar taki tillit til framangreindra staðreynda og leiði þannig til meiri jöfnuðar innan útgerðarinnar.

Strandveiðar 
Strandveiðar eru að óbreyttu í uppnámi þar sem afli til þeirra minnkar um 2.600 tonn á næsta ári. Þeim fer ört fækkandi sem velkjast í vafa um mikilvægi strandveiðanna. Þær eru gríðarleg lyftistöng fyrir hinar dreifðu byggðir, hafa komið með ferska anda inn í sjávarútveginn og þannig haft jákvæð áhrif á viðhorf almennings til hans. Þegar ferðast er um landið og ekið niður á bryggju blasir nú við iðandi mannlíf.  Smábátar á siglingu inn og út úr höfnunum og örtröð við löndunarkrana. Fiskurinn keyptur jafnt af stórum sem smáum aðilum.  Þannig er tryggt hráefnisframboð og atvinna yfir sumartímann þegar dregur úr umsvifum hjá heilsársútgerðum. Strandveiðarnar tryggja þannig nægjanlegt magn af ferskum fiski og auka afhendingaröryggi fyrirtækjanna á erlenda markaði.
Þar sem 30% aflaheimilda strandveiðiflotans er tryggð með bráðabirgðaákvæðum sem falla úr gildi í lok yfirstandandi fiskveiðiárs tel ég einsýnt að sumarþing ræði framtíð strandveiða.  Stjórnarfrumvarp sem ætlað var að tryggja viðunandi aflaheimildir til strandveiða fékkst ekki samþykkt áður en þingi var frestað.  Á fundum með atvinnuveganefnd var ekki að finna andstöðu nefndarmanna við það og því tel ég rétt að það komi til afgreiðslu á sumarþingi.
Það er kominn tími til að menn sættist við strandveiðar.  Þær hafa sannað gildi sitt og eiga óumdeilanlega að vera hluti af sjávarútvegi  okkar.

Makrílveiðar
9. gr. laga um stjórn fiskveiða fjallar um nýjar tegundir sem ekki hafa verið hlutdeildartengdar. Þegar greinin var samin hefur ekki verið reiknað með aðstæðum eins og makríllinn hefur markað. Þar á ég við að hann varð ekki veiðanlegur hjá smábátum fyrr en nokkrum árum eftir að veiðar á honum hófust hjá stærri skipum.  Lögin um stjórn fiskveiða verða að taka tillit til veiða útgerðarflokka sem ekki hafa átt sömu möguleika á að taka þátt í veiðunum og ávinna sér þannig aflareynslu. Makríllinn varð ekki veiðanlegur hjá smábátaflotanum fyrr en á síðasta ári og því eðlilegt að breytingar á lagagreininni taki tillit til þess. Verði engar breytingar gerðar getur það leitt til fábreytni í útgerð skipa á makrílveiðum þar sem megnið af samfelldri veiðireynslu er hjá örfáum útgerðum.   
Hefð er fyrir makrílveiðum smábáta hjá nágrannaþjóðum sem segja hann verðmætastan færaveiddan. Reynsla vinnsluaðila hér á landi er sú sama og því nauðsynlegt að smábátum verði tryggð sambærileg hlutdeild í veiðunum og tíðkast hjá Norðmönnum.    

Önnur brýn mál 
Hér hefur aðeins verið tæpt á þremur atriðum sem ég tel sýnt að þurfi að breyta á sumarþingi Alþingis. Auk þeirra skal minnt á bráðabirgðaákvæði sem þarf að framlengja og fjallar um veiðiheimildir í byggðakvóta og hámark á krókaaflahlutdeild.  
Þá verða lögin að tryggja ráðherra heimild til að auka tímabundið, innan ákveðinna svæða m.t.t. veiðarfæra, aflaheimildir einstakra tegunda. Þar er ýsan gleggsta dæmið, þar sem við höfum orðið af miklum verðmætum í formi útflutningstekna, aukinnar markaðshlutdeildar, atvinnu- og skatttekna.  Í tengslum við þennan lið vek ég einnig athygli á að tryggja verður ráðherra heimild að hækka tímabundið VS-afla prósentu, t.d. vegna meðafla við grásleppuveiðar.   
Að lokum minni ég á mikilvægi þess að auka umhverfisvænar veiðar enn frekar með hækkun á línuívilnunarprósentu samfara því að hún gildi fyrir alla dagróðrabáta.
Höfundur er framkvæmdastjóri Landssambands smábátaeigenda.