Strandveiðar í maí – erfitt tíðarfar

Viðmiðunarafli fyrir strandveiðar í maí dugði á þremur svæðum og mun það sem eftir sat bætast við júní.  Hins vegar nægði hann aðeins í 10 veiðidaga á svæði A, en leyfilegir veiðidagar í maí voru alls 15. 
Að sögn strandveiðimanns var maí þetta árið erfiður, leiðinda tíðarfar og lítið um samfellu í róðrum. 
Alls hafa 595 bátar fengið úthlutað leyfi til strandveiða og af þeim eru 544 byrjaðir veiðar.  Í maí fóru bátarnir í 3.558 sjóferðir og var afli að meðaltali 460 kg.  Eftir svæðum dreifðist hann frá 401 kg upp í 492 kg á svæði A.  Afli á hvern bát var hins vegar mestur á svæði D 3,33 tonn.
Aflahæstur strandveiðibáta í maí var Örn II SF 70 frá Hornafirði.  Hann fór í 14 róðra sem gáfu alls 10.452 kg.
Á svæði A var Kári BA 132 með mestan afla 7.493 kg (10 róðrar), Nonni HU 9 fiskaði mest á B svæði 7.516 kg (11 róðrar) og svæði C var Gunnar KG ÞH 34 aflahæstur með 7.298 í 11 róðrum.