Hinn 20 júní s.l. birtist í Fiskifréttum grein eftir formann LS, Arthur Bogason, í tilefni af ráðgjöf Hafró fyrir næsta fiskveiðiár. Fyrirsögnin var „Fjallræða fiskifræðinganna.
Í lok greinarinnar óskar hann eftir útskýringum frá stofnuninni varðandi rannsóknaraðferðina við stofnmælingar og sérstaklega vísað þar til grálúðunnar. Engin svör hafa borist enn.
Greinin í heild sinni:
„Í ágúst 2012 ritaði ég grein í Fiskifréttir þar sem ég m.a. rakti atburðarásina sem átti sér stað í kjölfar þess að Hafrannsóknastofnun kynni tillögur sínar um afla á Íslandsmiðum fiskveiðiárið 2012/2013. Lýsingin var í stuttu máli þessi:
Viðbrögð samtaka í sjávarútvegi eru hefðbundin. Nokkur eru svekkt, önnur nöldra smá og Landssamband smábátaeigenda lýsir frati.
Umræðan hljóðnar svo eftir viðtöl við yfirmenn Hafró þar sem þeir hamra á mikilvægi þess að tillögunum sé hlítt.
Þetta er nákvæm lýsing á því sem gerst hefur síðan 6. júní 2013, en þá um morguninn bauð Hafrannsóknastofnun til kynningarfundar á tillögum sínum fyrir næsta fiskveiðiár.
Það er annarra að rita fundargerð af þessum samkomum, en ég ætla að geta þess sem ég lærði nýtt á þessari kynningu.
Dæmið um grálúðuna
Eftir yfirferð um þorsk, ýsu og eitthvað fleira kom að grálúðunni. Hafrannsóknastofnun leggur til 20 þúsund tonna afla fyrir komandi fiskveiðiár, sem er óbreytt tonnatala frá árinu á undan.
Það er hálf önnur eilífð síðan að ég hætti að botna í tillögum Hafrannsóknastofnunar varðandi grálúðu. Ástæðan: Veiðin hefur alla tíð farið langt framúr tillögum. Elsta tillagan sem ég finn í mínum fórum er fyrir árið 1979, en frá og með fiskveiðiárinu 1994/1995 hóf stofnunin að gefa ráðgjöf fyrir „allt svæðið, þ.e. Austur-Grænland, Ísland og Færeyjar.
Í Fjölriti Hafrannsóknastofnunar nr. 169 (2013) á bls. 37 er að finna töflu sem sýnir söguna í þessum efnum. Til einföldunar er nóg að lesa dálkana „Tillaga og „Afli alls (sjá meðfylgjandi töflu)
Umfram öll skekkjumörk
Mismunurinn á tillögunum og aflanum er 215 þúsund tonn sem er langt umfram öll hugsanleg skekkjumörk. Meðaltalsráðgjöfin þessi 18 fiskveiðiár var rúm 14.700 tonn, en 215 þúsund tonnin dekka 14,6 slík meðaltöl.
Meðalveiðin á sama tíma var rúm 26.600 tonn, eða 81% að meðaltali umfram ráðgjöf allt tímabilið. Þegar „verst lét, fiskveiðiárið 2008/2009, var veiðin 444% umfram ráðgjöf.
Leitað skýringa
Nú man ég eitthvað af þeim skýringum sem ég hef fengið í fortíð þegar ég hef spurt útí það sem mér sem leikmanni finnst blasa við – þ.e. að ef eitthvað væri að marka ráðgjöfina ætti grálúðustofninn að vera löngu útdauður.
Þær útskýringar eru m.a. að veiðisvæðið utan íslenskrar lögsögu sé stórt og grálúðan á því öllu af sama stofni, óvissuþættir í stofnmælingu og fleira.
Það kom mér því gersamlega á óvart, þegar ég ákvað að impra á þessu á kynningarfundinum hinn 6. júní s.l. að fá þá í fyrsta skipti að heyra að:
„ráðgjöfin í fortíð vigtaði ekkert við tillögugerð næsta árs á eftir, heldur einungis aflinn (30%) og stofnmælingin (togararallið).
Kemur málinu ekkert við
Hingað til hef ég talið – og það ekki að ástæðulausu eftir að hafa hlustað á óteljandi útgáfur Hafrannsóknastofnunar af fjallræðunni um mikilvægi þess að tillögum í þorski væri fylgt í hvívetna – að tillaga fyrra árs í grálúðu hlyti að vera til hliðsjónar árinu síðar þó ekki væri til annars en að meta hversu mikið væri að marka hana. En hún kemur málinu eftir allt saman ekkert við.
Gildi endurtekinna tilrauna
Í heimi vísindanna er það reglan að endurteknar tilraunir með samskonar aðferðum og tækjum sem leiða til sömu eða mjög svipaðrar niðurstöðu reka stoðir undir þær kenningar eða kerfi sem verið er að vinna með.
Þetta er einmitt ræða Hafrannsóknastofnunar í þau fáu skipti sem hún hefur svarað gagnrýni minni á togararallið og notkun þess til að mæla stærð þorskstofnsins.
Rallið sé sama aðferðin endurtekin ár eftir ár, samræmi sé í gagnasöfnuninni frá einu ári til þess næsta og niðurstöðurnar myndi því marktæka vísitölu fyrir það sem leitast er við að sanna. Ráðgjöfin byggi því á traustum grunni sem betur hefði verið farið nákvæmlega eftir í gegnum tíðina.
Skólabókardæmi forstjórans
Í viðtali sem birtist í síðustu Fiskifréttum við forstjóra Hafrannsóknastofnunar gengur hann svo langt að tala um „skólabókardæmi um frábæran árangur þess að fylgja tillögum stofnunarinnar í tilfelli þorsksins. Tillagan fyrir næsta fiskveiðiár er 215 þúsund tonn. Þegar kvótakerfinu var hrundið úr vör 1984, á þeirri forsendu að ástand þorskstofnsins væri svo alvarlegt að við landauðn lægi, var tillaga Hafrannsóknastofnunar nánast sú sama. Þá var talað um svarta skýrslu en nú bjarta. Einhver myndi láta freistast til að kalla þetta fullkomna uppgjöf og árangursleysi.
En aðferðinni er ekki bara beitt á þorsk, heldur nánast allar nytjategundir sjávar við landið – að undanskyldum uppsjávartegundum. Nú síðast var grásleppunni kippt inní ráðgjöfina, sem í mínum huga er rannsóknarefni, eitt og sér .
Úrskýringa óskað
Í ljósi þess sem að framan greinir um grálúðuna finnst mér við hæfi að Hafrannsóknastofnun útskýri hversvegna ráðgjöfin skiptir engu þegar grálúðan er annars vegar. Er ekki saga ráðgjafar og veiði í grálúðunni rækileg sönnun þess að hin endurtekna rannsóknaraðferð er alls ekki að gagnast?