Eins og fram hefur komið í fréttum hafa fjölmargir smábátaeigendur útbúið báta sína til makrílveiða, með ærnum tilkostnaði. Kostaðartölur hlaupa á talsverðu bili, en ekki er óalgengt að heyra nefnt 4-5 milljónir og ef asdik er sett að auki, 8-9 milljónir. Nú, þegar þrjár vikur eru liðnar af makrílvertíðinni eru margir þeirra enn með lítinn afla. Skipstjórar makrílbátanna tala um að mun minna sjáist af honum og það vekur athygli að togveiðin hefur færst lengra í vestur frá landinu.
Enginn treystir sér til að tilgreina sérstakar ástæður fyrir þessum breytingum frá fyrra ári. Aðeins örfá ár eru síðan makríllinn hóf göngur sínar í miklum mæli að upp að ströndinni og því engin hefð til staðar að vísa í. Því fer þó fjarri að menn séu að leggja árar í bát. Í gær gerði smá gusu, t.d. við Breiðafjörðinn, en í morgun var hins vegar ekkert að gerast á sömu slóðum.
Samkvæmt vef Fiskistofu hafa veiðst 370 tonn úr línu- og handfærapottinum til dagsins í dag (svo framarlega að allar tölur séu komnar í hús), en 3200 tonn er ætlað í þær veiðar að óbreyttu.
Það er með makrílveiðiskapinn eins og annan veiðiskap, að nú er bara að bíða, vona og bíta á jaxlinn. „Þetta kemur allt saman, sagði einn skipstjóranna, sallarólegur í símtali fyrr í dag.
Kvikindið sem hann Greg Pickering heldur hér á er Spænskur makríll sem hann veiddi við strönd Vestur-Ástralíu. Þessi tegund makríls getur orðið allt að 2,5 metrar á lengd og er sú stærsta í heimi. Þyngsti makríllinn sem nokkru sinni hefur veiðst var tæp 45 kg. Hann náðist við Scottburgh, Natal, í S-Afríku.