Strandveiðar voru einn af dagskrárliðum stjórnar LS sem fjallað var um á fundi hennar nýverið. Etirfarandi ályktun var samþykkt:
„Fundur í stjórn Landssambands smábátaeigenda haldinn á Raufarhöfn 17. júlí 2013 þakkar velvild þjóðarinnar í garð strandveiða.
Strandveiðar hafa á aðeins örfáum árum sannað gildi sitt fyrir auðugra mannlífi í hinum dreifðu byggðum samhliða því að vera til fyrirmyndar um nýtingu auðlindarinnar með umhverfisvænum hætti.
Handfæraveiðar eru jafnt nú sem áður fyrr mikilvægur þáttur í útgerð landsmanna. Við handfæraveiðar stíga fjölmargir sjómenn framtíðarinnar sín fyrstu spor til áralangrar sjómennsku sem tekur aftur á móti þeim þegar aldurinn færist yfir.
Mikil framþróun hefur orðið í veiðitækni með tilkomu hátæknivæddra handfærarúlla sem alfarið er sprottin úr íslensku hugviti. Auk þess að veiða bolfisk hefur búnaðurinn leitt af sér aðferð við uppsjávarveiðar. Miklar vonir eru bundnar við færaveiðar á makríl þar sem hann er mjög eftirsóttur á erlendum mörkuðum.
Barátta trillukarla fyrir frjálsum handfæraveiðum hefur verið knúin áfram af félagi þeirra, Landssambandi smábátaeigenda. Strandveiðar eru afurð þessara baráttu. Það er skoðun LS að veiðar handfærabáta skili þeim stofnum sem þeir nýta sjálfbærum til komandi kynslóða. Með vísan til þess eigi veiðar þeirra að vera fyrir utan ráðgjafar Hafrannsóknastofnunar og ekki á nokkurn hátt að hafa áhrif á ákvörðun ráðherra um heildarafla.
Þannig að jafnræðis verði gætt meðal aflahlutdeildarhafa þykir Landssambandi smábátaeigenda rétt að takmarka strandveiðar við eftirfarandi þætti:
- 4 mánuðir á ári
- 4 dagar á viku
- 4 færarúllur að hámarki
- afli í hverri veiðiferð reiknist ekki hærri en 650 þorskígildi
- eigandi viðkomandi báts stundi veiðarnar
- svæðaskipting verði óbreytt.
Stjórn Landssambands smábátaeigenda beinir því til stjórnvalda að við fyrirhugaða endurskoðun laga um stjórn fiskveiða verði strandveiðar settar í lög með framangreindum áherslum.
