Áskorun frá trillukarli

Maður er nefndur Georg Eiður Arnarson og býr í Vestmannaeyjum.  Hann er trillukarl og titlar sig að auki lundakarl.

Georg heldur úti bloggsíðu, þar kennir oft forvitnilegra grasa. Hann hefur og mjög skýrar skoðanir á mörgum málum og ófeiminn við að leggja orð í belg.
Hinn 17. ágúst s.l. birtist á síðunni hans greinarstúfur undir fyrirsögninni „Áskorun á sjávarútvegsráðherra Íslands….Sigurð Inga Jóhannsson og hljóðar svo:
„Nú hefur það loksins verið staðfest af Hafró að makríllinn er stærsti skaðvaldurinn á áhrifavaldurinn í því að varp fjölmargra fuglastofna á Íslandi hefur misfarist síðustu árin, m.a. lunda og kríu og þegar við horfum á þá staðreynd að makríllinn byrjaði fyrst fyrir sunnan land og hefur síðan verið að færa sig vestur og núna síðast norður fyrir land og einnig farinn að veiðast við Grænland, þá er nokkuð ljóst að makríllinn er stærsti skaðvaldurinn í sílastofni Íslands og alls ekki ólíklegt að hann muni einnig leggjast í át á seiðum annarra fiskistofna, að maður tali nú ekki um loðnuseiðin, með tilheyrandi tjóni fyrir okkur öll.
Því skora ég á sjávarútvegsráðherra að bæta nú þegar verulega við aflaheimildir í makríl, enda er það að mínu mati það eina sem við getum gert til þess að sporna við uppgangi makrílsins og kannski svolítið skrítið að á sama tíma og fiskifræðingar mæla u.þ.b. 1,5 milljónir tonna í íslensku lögsögunni erum við aðeins að veiða liðlega 100 þúsund tonn. Til samanburðar er veiðireglan varðandi loðnuna þannig að allt er veitt sem mælist umfram 400 þúsund tonn.
Ég sé líka í fréttum að núverandi sjávarútvegsráðherra Noregs, Lisbeth Berg Hansen, sagði í síðustu viku að Norðmenn hyggist auka verulega aflaheimildir sínar í makríl, enda sé stofninn stórlega vanmetinn.
Varðandi afstöðu Evrópusambandsins, þá er þetta í mínum huga afar einfalt.  Makríllinn margfaldar þyngd sína í lögsögu okkar og er m.a.s. farinn að hrygna í henni og ef við viljum ekki horfa upp á hugsanlega varanlegt tjón í fjölmörgum fuglastofnum okkar, þá verðum við einfaldlega að auka veiðarnar.
Tek það fram að ég er hvorki starfandi við veiðar né vinnslu á makríl.
LS hefur ályktað í nákvæmlega sömu veru og fagnar þessum skrifum Georgs Arnars og áskorun hans á sjávarútvegsráðherra.
Screen Shot 2013-08-19 at 2.07.08 PM.png
Óneitanlega fallegur fiskur, en almennt telja íslenskir 
fiskimenn að hann verði alger plága innan lögsögunnar 
ef ekki verður veitt mun meira af honum en gert er. 
Sömu raddir heyrast nú frá Noregi.