Síldveiðar – aðeins 13 bátar hafa veitt innan brúar

Heildarafli smábáta sem leyfi hafa til síldveiða í lagnet á Breiðafirði er kominn í 619 tonn.  Alls hafa 44 bátar keypt veiðiheimildir frá Fiskistofu, samtals 834 tonn og greitt fyrir þær rúmar 10 milljónir. Tveir bátar hafa fiskað yfir 50 tonn, en flestir þeirra sem aflað hafa mest eru að stöðvast vegna kvótaleysis.  Það er því nauðsynlegt svo hægt verði að stunda veiðarnar áfram að sjávarútvegsráðherra heimili bátunum að nýta veiðiheimildir innan brúar í Kolgrafafirði á öllu veiðisvæðinu.
Aðeins 13 bátar hafa farið til veiða innan brúar sem skýrist af stærð bátanna og að mjög varasamt er að sigla undir brúna.  Þá er það einnig að trufla veiðarnar að ísskæni er byrjað að koma og gæti fjörðinn lagt á stuttri stundu og komið í veg fyrir veiðar þar.  Heimildir innan brúar eru 1.300 tonn, en aðeins hefur tekist að veiða 75 tonn þar.
Vinnsluaðilar greiddu lengst af vertíðar 80 kr á hvert kíló af síld, en vegna markaðsaðstæðna hefur verð nú lækkað niður í 70 krónur.  Að sögn sjómanna er því alveg á mörkunum að veiðarnar standi undir sér.  Þeir segja því nauðsynlegt að aflétta öllum hömlum á því hvar megi stunda veiðarnar þannig að kostnaður verði sem minnstur.   
Á Breiðafirði eru nú aðeins smábátar á veiðum þar sem stærri skipin eru öll farin þaðan og reyna nú fyrir sér á Breiðamerkurdýpi.  
Mynd sem hér birtist tók Björg Ágústsdóttir fv. bæjarstjóri í Grundarfirði þegar Björg Hallvarðs AK er á leið inn í Kolgrafafjörð.  Á henni sést vel við hvaða aðstæður sjómenn þurfa að glíma á þessum vettvangi.
Í töflu sem hér fylgir er yfirlit um veiðarnar.pdf.
Kolgrafafjörður.jpg