Mikil óvissa um framhald grásleppuveiða

Hafrannsóknastofnun á villigötum er heiti skoðunargreinar sem Örn Pálsson ritar í Fiskifréttir sem út komu í dag 16. janúar.
Hafrannsóknastofnun á villigötum.jpg
Screen Shot 2014-01-16 at 22.38.52.png
Grásleppuveiðar eru smábátaeigendum afar mikilvægar. Veiðarnar eru skilgreindar sem sérveiðar og eru takmarkaðar við ákveðna báta sem rekja rétt sinn til ársins 1997. Fiskistofa úthlutar árlega leyfum til þeirra enda hafi viðkomandi bátur leyfi til veiða í atvinnuskyni.
Fjöldi þeirra sem stunda veiðar fer eftir ýmsu. Þyngst vega þar aðstæður á mörkuðum fyrir grásleppuhrogn. Þegar verð eru há og mikil eftirspurn eftir hrognum flykkjast menn á veiðar og ef saman fer gott verð og veiði gefur vertíðin vel í aðra hönd.
Sveiflur í veiðum og verði 
Á undanförnum sjö árum [2007 – 2013] hafa að meðaltali 284 bátar stundað veiðarnar. Flestir voru þeir árið 2011 eða alls 369 og fæstir árið 2007 en þá voru þeir 144 talsins.  
Veiðin hefur sveiflast frá 6.772 tunnum árið 2007 í 17.947 tunnur árið 2010. Meðalveiði á tímabilinu eru 11.327 tunnur. 
Screen Shot 2014-01-16 at 22.53.37.png
Verðsveiflur á tímabilinu hafa verið þær mestu sem þekkjast í sjávarútveginum, frá því að verðið sé arfaslakt og upp í að það sé í hæstu hæðir. Í upphafi tímabilsins var meðalverð á blautum hrognum 2,61 € pr. kg, fór hæst í 6,55 € árið 2011 og var á síðustu vertíð 3,86 €.  Gríðarleg verðhækkun er að mestu til komin vegna þess að sjómenn ákváðu að draga úr veiði í kjölfar verðlækkunar. Þegar markaðurinn kallaði eftir hrognum byrjaði verð að stíga og hækkaði um 150% á þremur árum. Þegar við kippum þessu yfir í krónur er hækkunin frá 240 kr. upp í 1.058 á meðalgengi evru hvers árs.
Screen Shot 2014-01-16 at 22.54.56.png
Aðkoma LS
LS hafði lengst af allt um það að segja hversu löng vertíðin ætti að vera.  Umræðuferlið hófst í lok vertíðar, var rætt á aðalfundum svæðisfélaganna og samþykkt gerð á aðalfundi. Þeirri samþykkt var fylgt allt til ráðuneytisins ef ekkert óvænt gerðist á mörkuðunum. Ráðuneytið virti tillögur LS um fyrirkomulag veiðanna hvað varðaði upphafstíma og fjölda veiðidaga.   Á áðurgreindu tímabili voru dagar flestir 62 árin 2009 og 2010, en fæstir á vertíðinni 2013, alls 32.
Hafró gerir sig gildandi
Nú hin síðari ár hefur Hafrannsóknastofnun gert sig gildandi um stjórnun grásleppuveiða. LS er ekki andvígt góðum ráðum frá stofnuninni en telur þau sem hér eru á ferðinni gagnrýniverð og ekki í takt við áratugareynslu grásleppukarla.  Í nýjustu ástandsskýrslu stofnunarinnar segir eftirfarandi:  
„Við mat á þróun stofnstærðar er stuðst við upplýsingar úr stofnmælingu botnfiska í mars (rallið innsk ÖP).  Þó hrognkelsi séu talin dvelja að stórum hluta uppsjávar veiðast þau einnig í botnvörpu.     
Aðalfundur LS var á einu máli um að Hafrannsóknastofnun væri hér á villigötum og ályktaði eftirfarandi:  
„Aðalfundur LS hafnar þeirri aðferðafræði sem Hafrannsóknastofnun beitir við stofnstærðarmælingar á grásleppu og þeirri ráðgjöf sem á henni er byggð.
Ógnvænleg mynd
Myndin sem hér er birt er tekin úr ástandsskýrslu Hafró 2013 og sýnir annars vegar stofnvísitölu merkta með skyggðum ferli og hins vegar afla á sóknareiningu merkt með punktalínu. 
Hafró les það úr gögnum togararallsins að stofnvísitala grásleppu hafi lækkað næstum samfellt frá árinu 2006 og að sömu megindrættir séu í afla á sóknareiningu á grásleppuvertíðum. 
Screen Shot 2014-01-16 at 22.57.12.png
Því verður ekki neitað að hér er í raun ógnvænleg mynd á ferðinni þegar stofnvísitalan er skoðuð.  Hún mældist 13 árið 2006 en rúmir 4 í fyrra.
Með hliðsjón af þessu og skýrskotun í vangaveltur Hafrannsóknastofnunar í skýrslu er í uppsiglingu léleg vertíð hvað aflabrögð áhrærir.
Að sjálfsögðu er ekkert hægt að segja til um það hvernig rallið kemur út, en lækki stofnvísitala með sama hraða og verið hefur gæti tillagan orðið 4.000 tunnur og sóknardagar þá aðeins helmingur af því sem var á vertíðinni 2013.  Verði það raunin og ráðherra kvitti upp á er komin upp staða sem slagar nærri því að setja spurningarmerki um framhald farsælla grásleppuveiða smábátaeigenda.
Erfið staða
Á þessari stundu eru grásleppusjómenn að undirbúa vertíðina.  Vinna við fellingu og uppsetningu neta.  Ræða við söluaðila um væntanlega veiði og spá í hvernig markaðurinn hefur þróast á milli ára.   Hvort búast megi við sama hörmungarverðinu og var árið 2013.  
Væntingar eru um að í upphafi vertíðar verði búið að selja þær birgðir sem til eru þar sem dregið var úr veiði milli vertíðanna 2012 og 2013.  
Staða grásleppukarla er því ekki öfundsverð, þegar bæði þarf að glíma við markaðina og ráðgjöf vísindastofnunar sem vart stenst skoðun.
Höfundur er framkvæmdastjóri Landssambands smábátaeigenda.