Ráðherra svartsýnn á lausn

Fyrr í dag átti LS fund með Sigurði Jóhannssyni sjávarútvegsráherra, þar sem rætt var um vanda útgerða krókaaflamarksbáta vegna mikillar ýsugengdar á veiðislóð þeirra.
LS fór yfir stöðu málsins þar sem fram kom að ekkert lát væri á ýsu sem meðafla við þorskveiðar.  Hann væri alltaf að aukast þrátt fyrir að menn reyndu að forðast ýsuna eins og hægt væri.  Þeir hefðu nú orðið þriggja ára þjálfun í slíku sem dugar lítt þar sem ekkert lát er á vaxandi ýsuafla.  
Ýsuafli á fyrsta þriðjungi undanfarinna fiskveiðiára sýndi þetta glöggt, þar sem 2010 hefði verið búið að veiða 37% af úthlutuðum kvóta um áramót, en hlutfallið verið komið í 45% nú um áramótin.
Dæmi væru um að menn hefðu ekki haldið einbeitingu og misst sig í ýsuna og þá væri aflinn jafnvel kominn í 300 kg á bjóð af hreinni ýsu.
Vandamálið væri ekki bundið við einn landshluta, heldur væri ýsuvá nánast á allri grunnslóðinni allt í kringum landið.  Auk þess að erfiðleikar með að fá kvóta á leigu leiddi þetta til stóraukins útgerðarkostnaðar.  Bátarnir væru á eilífri siglingu af hefðbundinni veiðislóð á staði þar sem álitið væri að minna væri um ýsu.  Olíukostnaður við veiðarnar hefði af þessum sökum stóraukist og oftast leiddi þetta af sér verðminni þorskafla og minni afla á hvert bjóð.   Hagnaðurinn sem hefði átt að verða af auknum kvóta í þorski léti því bíða eftir sér og margar útgerðir stæðu frammi fyrir stöðvun veiða.  Hið óvenjulega veiðimynstur sem óhjákvæmilega yrði að stunda væri vonlaust til lengdar.  
LS lagði áherslu á það við ráðherra að auka nú þegar ýsukvótann um fimmþúsund tonn.  Það mundi væntanlega nægja til að koma hreyfingu á kvótamarkaðinn og gera hann heilbrigðari en nú er.  Dygði það ekki væri óhjákvæmilegt að beita yrði öðrum aðferðum sem krefðust breytinga á lögum um stjórn fiskveiða.
LS gagnrýndi þá aðferðafræði Hafrannsóknastofnunar að lækka stöðugt veiðihlutfallið.  Það hefði aðeins verið 39% á síðasta ári, en svo lágt hlutfall heildarveiði úr veiðistofninum hefði ekki sést síðan 1982 eða í rúma þrjá áratugi.     
Ráðherra gaf LS ekki tilefni til bjartsýni á lausn málsins.  Málið yrði að skoða í samstarfi við ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar og athuga hvort vísindamenn þar á bæ teldu efni vera til að breyta ráðgjöfinni svo tilefni væri til kvótaukningar.