Stjórn Snæfells kom saman til fundar 13. febrúar sl. og ræddi málefni sem hæst bera um þessar mundir. Ýsuvöntun, grásleppuveiðar, strandveiðar, vigtarreglur o.fl.
Strandveiðar
Stjórn Snæfells ítrekar samþykktir aðalfundar Landssambands smábátaeigenda um strandveiðar:
• Veiði verði heimiluð 4 daga í viku
• Fjöldi handfærarúlla á hvern bát verði að hámarki fjórar
• Heimilt verði að stunda strandveiðar 4 mánuði á ári hverju
• Hámarksafli í hverri veiðiferð verði 650 þorskígildi
• Svæðaskipting verði óbreytt
• Afli til strandveiða verði óskilgreindur og tekinn utan aflamarks.
Stjórn Snæfells leggur sérstaka áherslu á að öll ákvæði til bráðabirgða um strandveiðar verði færð inn í almenna lagakafla um strandveiðar og afli sem þarf til að framangreind samþykkt náist verði tryggður. Bent er á að aflaaukning í þorski sem orðið hefur undanfarin ár í þorski færi langt með að tryggja slíkt.
Grásleppuveiðar
Veiðidagar á grásleppu fyrir árið 2014 verði aldrei færri en 32. Eigendur grásleppubáta og sjómenn á þeim, virði þau lög og reglur sem í gildi eru, s.s. varðandi netafjölda og mælingu á lengd þeirra.
Ýsuveiðar krókaaflamarksbáta
Skorað er á ráðherra sjávarútvegsmála að auka nú þegar úthlutun í ýsukvóta og ítrekar stjórn Snæfells tillögur frá Landssambandi smábátaeigenda varðandi lausn á ýsuvandræðum krókaaflamarksbáta.
Einnig minnum við á samþykktar tillögur frá aðalfundi LS um ígildisveiðar krókaaflamarksbáta en þar er átt við að menn gætu veitt ákveðinn hluta af úthlutuðum aflaheimildum í ígildum óháð tegund.
Vigtarreglur
Skorað er á stjórnvöld að festa vigtarreglur á afla með fastri ísprósentu hvort sem um er að ræða dagróðrabáta eða útilegubáta, mismunandi eftir bátaflokki. Einfalda ætti alla vinnu við vigtun sjávarfangs.
Formaður Snæfells er Sigurjón Hilmarsson Ólafsvík og með honum í stjórn eru:
Aðalmenn:
Guðlaugur Gunnarsson Ólafsvík
Kristinn Ólafsson Grundarfjörður
Valentínus Guðnason Stykkishólmi
Örvar Marteinsson Ólafsvík
Varamenn
Alexander Kristinsson Rifi
Ásmundur Sigurður Guðmundsson Stykkishólmi
Heiðar Magnússon Ólafsvík
Hjörleifur Guðmundsson Ólafsvík
Þorgrímur Kolbeinsson Grundarfirði