Samningaviðræðum um skiptingu makrílskvótans fyrir árið 2014 er lokið. Eins og fram hefur komið er Ísland ekki aðili að samkomulaginu og er það miður. Samkomulagið byggir á samningi Evrópusambandsins, Noregs og Færeyjar til næstu fimm ára. Í ár hafa ríkin ákveðið að veiða samtals 1.047.000 tonn.
Í nokkurn tíma höfum við sem heima sitjum átt von á að samkomulag væri að nást og hlutur okkar yrði 11,9%. Málið hefði verið tæklað þannig að Norðmenn mættu eiga það sem afgangs væri. Með samningnum snérist þetta við það er okkar hlutverk að standa utan samningsins frammi fyrir ákvörðun um hversu mikið við eigum að veiða.
Landssamband smábátaeigenda hefur mikla hagsmuni varðandi makrílveiðar og framtíð þeirra. Félagsmenn hafa útbúið báta til veiðanna tilbúnir að nýta það sem kemur á þeirra veiðislóð. Í fyrra stunduðu um 100 smábátar færaveiðar á makríl og nam afli þeirra um 4.700 tonn. Mikilvægt er að þessi hópur búi yfir mikilli veiðigetu þar sem stærri skipum er óheimilt að veiða þeirra slóð.
Færaveiddur makríll er að öllu jöfnun nokkru verðmætari en sá trollveiddi og þá er markaður fyrir hann einnig greiðari. Veiðarnar umhverfisvænar og gríðarleg vinna sem fylgir þeim í landi. Mannlíf hinna dreifu byggða tekur kipp þegar makrílveiðar smábáta eru annars vegar.
Það er mín skoðun að Sigurður Ingi Jóhannsson sjávarútvegsráðherra eigi nú þegar að tilkynna um heildarafla í íslenskri lögsögu. Hann eigi að byggja ákvörðun sína á að við veiðum 11,9% af heildaraflanum eða 140 þús. tonn. Jafnframt er nauðsynlegt til að styrkja ákvörðunina að tilkynna að 12% heildaraflans verði ætlaður til færaveiða smábáta.
Örn Pálsson framkvæmdastjóri