Nýliðunarvísitala steinbíts á uppleið

Nýverið var haldinn á vegum Hafrannsóknastofnunar samráðsfundur um steinbítsrannsóknir. Fundurinn er árlegur og var sá fjórði í röðinni þar sem sjómenn, útvegsmenn og sérfræðingar Hafrannsóknastofnunar um steinbítsrannsóknir skiptast á upplýsingum, ræða ástand stofnsins og rannsóknir.
Ásgeir Gunnarsson, sérfræðingur á Hafrannsóknastofnun stjórnaði fundinum og flutti erindi þar sem hann greindi m.a. frá steinbítsrannsóknum sem farið hafa fram á Látragrunni og víðar.  Fram kom að búið er að merkja rúmlega 600 steinbíta á alls fjórum stöðum við Ísland – Látragrunni, Glettingnesgrunni, út af Skálavík og í Garðsjónum.  Merkilegt er að alls hafa 47 endurheimst og voru þeir allir merktir á hrygningarsvæðinu á Látragrunni árið 2012.  11 af þeim endurheimtust stutt frá þeim stað sem þeir voru merktir, sem bendir til þess að steinbítur virðist halda tryggð við ákveðinn svæði á Látragrunni.
Pétur Birgisson skipstjóri á Stefni flutti erindi þar sem hann fór yfir steinbítsveiðar á síðustu vertíð.  Trúlega hefur engin jafnmikla reynslu af steinbítsveiðum á Látragrunni og Pétur, en hann hefur stundað veiðar þar frá 1970.  Hann sagði að á tímabilinu júlí – september hefði veiði verið dræm á vesturslóðinni með „ræsinu þ.s. engin veiði var í haust.  Austuslóðin sem hann kallaði svo – tota inn í ræsið – hefði haldið veðinni uppi.
Í desember varð hins vegar breyting í vesturhluta Víkurálsins þar sem þar hefði gosið upp steinbítsveiði.  Því miður stöðvaðist veiðin fljótt vegna verðfalls á steinbítsmörkuðum.  Það hefði verið einkennilegt þar sem steinbíturinn var vel á sig kominn og stærð hans jöfn.
Almennt sagi Pétur að Látragrunnið gæfi mun minna nú en verið hefur.
Pétur lét þess einnig getið að karfi væri að aukast á svæðinu.  
Höskuldur Björnsson sérfæðingur á Hafrannsóknastofnun, fjallaði um stöðu steinbítsstofnsins við Ísland.  Hann sagði að afrakstur stofnsins væri ekki nema helmingur af því sem hann hafi verið undanfarin 20 ár vegna lélegrar nýliðunar.
Nokkrar ástæður gætu verið fyrir lélegri nýliðun meðal þeirra gæti verið truflanir á hrygningarslóð.  Hann sagði það áhugavert í því sambandi að nýliðun væri farin að fara aftur upp á sama tíma og dregið hefði úr togveiðum á lokunarsvæðum.