Leynd yfir tillögum um stjórn fiskveiða

Líklega hefur það aldrei hent áður að 2. umræða á Alþingi um viðamiklar breytingar á lögum um stjórn fiskveiða hafi aðeins staðið yfir í 1 klst og 21 mínútu.  Sú varð raunin á í gærkveldi.
Atvinnuveganefnd kynnti þar viðamiklar tillögur til breytinga á lögum um stjórn fiskveiða sem nefndin hefur unnið.  Ekki er vitað til þess að nefndin hafi haft samráð við hagsmunaaðila við vinnslu tillagnanna.  LS gagnrýnir slíkt og telur að vinna eigi þessi mál fyrir opnum tjöldum þar sem hagsmunaaðilar fá að fylgjast með og koma með ábendingar í formi umsagna.  Það verður vandasamt úr þessu þar sem komið er að þinglokum.  Spyrja mætti af því hvort það hafi verið með ráðum gert að afgreiða ekki frumvarpið fyrr út úr nefndinni og koma þannig í veg fyrir umræður og umsagnir um tillögurnar.   
Hvers vegna, hvað hafði nefndin að fela, hvers vegna þessi leynd?
Þeim mun furðulegra er málið þegar litið er til þess að ekki eru nema nokkrar vikur síðan sjávarútvegsráðherra mælti fyrir frumvarpi um breytingar á lögum um veiðigjöld þar sem hann harmaði að ekki hefði tekist að ljúka vinnu við heildarendurskoðun laga um stjórn fiskveiða.  Frumvarpið yrði því ekki lagt fram á þessu þingi eins og áformað hafði verið.  Í sömu ræðu boðaði hann að ráðist yrði í opið samráðsferli um frumvarpið innan 2-3 mánaða.  Það kom því mjög á óvart að atvinnuveganefnd hafi tekið málið upp og mælt fyrir viðamiklum breytingum á lögum um stjórn fiskveiða.
Eins og áður segir tók 2. umræða skjótt af og verða tillögurnar að öllum líkindum afgreiddar sem lög í dag 16. maí.