Í breytingatillögum atvinnuveganefndar Alþingis sem sagt var frá hér á undan verður tilgreind aflaviðmiðun afnumin frá og með fiskveiðiárinu sem hefst 1. september 2015. Þá er gert ráð fyrir að það verði í valdi viðkomandi ráðherra hvernig veiðiheimildir sem teknar verði utan aflahlutdeildar skiptast milli strandveiða, línuívilnunar, byggðakvóta og áframeldis og annarra uppbóta vegna aflaskerðinga. Hér er um gríðarlegar breytingar að ræða og afar ámælisvert ef þær verða afgreiddar af þinginu án allra umsagna og umræðna.
Af einstaka öðrum þáttum sem tillögurnar fela í sér eru þessar helstar:
Síldveiðar smábáta í Breiðafirði verða takmarkaðar við 800 tonn og gjald til veiðanna hækkað um 23%.
Skötuselsákvæði verður afnumið.
5,3% af leyfilegum heildarafla verður skipt í framgreind veiðikerfi á móti 4,8% eins og nú er.
Heimilt verður að skipta tilteknum tegundum krókaflamarks í aflamark, enda séu um jöfn skipti að ræða. Gert er ráð fyrir að það ákvæði taki strax gildi.
Sérstakur byggðakvóti Byggðastofnunar verður áfram tilgreindur í þorski, ýsu, steinbít og ufsa. Sú tillaga er nokkuð á skjön við stefnuna sem nefndin virðist vera að móta með pottunum að tilgreina ekki tegundir.
LS hefur óskað eftir fundi með atvinnuveganefnd Alþingis til að ræða tillögurnar.