Ein af þeim tillögum sem atvinnuveganefnd Alþingis afgreiddi til 2. umræðu um breytingar á lögum um stjórn fiskveiða var þeim lögum óviðkomandi. Hún tók til laga um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands. Nefndin ákvað að skeyta eftirfarandi grein við frumvarpið um þetta efni:
„Við gildistöku þessara laga verður eftirfarandi breyting á lögum um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands, nr. 79/1997, með síðari breytingum: Við „3. flokk í 2. mgr. 5. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Enn fremur öll fiskiskip með aflvísa 1.200 eða lægri.
Í nefndaráliti segir eftirfarandi varðandi breytinguna:
„Við umfjöllun um málið í nefndinni var rætt um fiskiskipaflota Íslendinga. Í honum eru skip með aflvísa lægri en 1.200 en eru lengri en 29 metrar. Slík skip falla í 2. flokk skv. 2. mgr. 5. gr. laga um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands. Nefndin leggur til breytingu í þá veru að öll fiskiskip sem eru með aflvísa lægri en 1.200 falli í 3. flokk fiskiskipa samkvæmt ákvæðinu. Þessi skip eru ekki sambærileg þeim skipum sem falla í 2. flokk en samkvæmt gildandi lögum heyra undir þann flokk skip sem eru almennt öflugri en þau sem hafa aflvísa 1.200 eða lægri. Nefndin telur rök standa til þess að miða fremur við aflvísa skipa að þessu leyti en lengd þeirra. Jafnhliða skorar nefndin á ráðherra að endurskoða aðferðafræðina við útreikning á aflvísum þessara skipa svo tryggt verði að allt það vélarafl sem nýtist út á skrúfu mælist með.
Ekkert samráð
Eins og fram hefur komið hafði nefndin ekkert samráð við LS né aðra hagsmunaaðila (eftir því sem best er vitað) við þessi inngrip í lög um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands. Þá minntist ráðherra ekki einu orði á að slíkt stæði til þegar hann mælti fyrir „rækjuhlutdeildarfrumvarpinu. Það er því ekki annað að sjá en breytingartillagan hafi komið eins og þruma úr heiðskíru lofti enda ekki um leiðréttingu að ræða. Með breytingunni eru alls sjö skip tekin og færð milli flokka sem veitir rétt til aukinna togveiða á grunnslóð.
Hvað gengur nefndinni til?
LS telur inngripið vera einsdæmi og mun óska skýringa hjá sjávarútvegsráðherra hvað hafi legið á bakvið ákvörðun nefndarinnar. Hvers vegna þessi viðmiðunarmörk? Hvers vegna var ekki leitað eftir áliti hagsmunaaðila og Hafrannsóknastofnunar við ákvörðunina? Áhættumat á auknum ágangi á grunnslóð af völdum togveiðarfæra? Hvers vegna þessi leynd?
Þá mun LS óska eftir því við atvinnuveganefnd að fá afrit af þeim gögnum sem urðu tilefni að tillögu nefndarinnar um áðurnefnda lagabreytingu.
Hverjir öðlast réttinn?
Það sem nýtt ákvæði í lögunum segir er að
öll skip 29 m og lengri með aflvísa 1.200 eða lægri falla inn í 3. flokk laga um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands.
Til nánari útskýringa miðast heimildir skipa sem veiða með botnvörpu, flotvörpu og dragnót innan fiskveiðilandhelgi Íslands við stærð þeirra og aflvísi. Eftir því er skipunum skipt niður í þrjá flokka. Í 1. flokki eru skip 42 metrar og lengri og öll skip með aflvísa 2.500 eða hærri. Í 2. flokki eru skip milli 29 m og 42 m með aflvísa á bilinu 1.600 – 2.500 og í 3. flokki eru þau skip sem rúmast ekki í 1. og 2. flokki.
Landssamband smábátaeigenda hefur farið yfir skipaskrá og flokkað út þau skip sem hafa verið í 2. flokki en með lagabreytingunni færast þau nú í 3. flokk.
Sjá: Aflvisar.pdf
Öll skipin öðlast með lagabreytingunni réttindi til veiða nær landi á sérstaklega tilgreindum svæðum. Veiðisvæðin eru við SA-land og S-land inn að 3 sjómílum og í Breiðafirði þar sem mörkin eru við 4 sjómílur.