Lágt verð ógnar grásleppuveiðum

Alls hafa verið gefin út 210 leyfi til grásleppuveiða sem er fækkun leyfa um 60 frá sl. ári.  Nú hafa 134 bátar lokið veiðum og því 76 enn að.  Flestir þeirra er á B svæði í innanverðum Breiðafirði 27, en þar var heimilt að hefja veiðar 20. maí sl. 
Helstu ástæður fækkunarinnar er aukinn kostnaður við veiðarnar samtímis að verð á grásleppu og hrognum hefur lækkað.  
Svipuð þróun hefur átt sér stað hjá öðrum þjóðum, en þó sýnu alvarlegri.  
Á Nýfundnalandi eru veiðar ekki enn hafnar þar sem kavíarframleiðendur hafa ekki samþykkt að greiða það verð sem sjómenn hafa sett upp.  Á síðasta ári var sami hnúturinn til staðar sem endaði með því að sjómenn fóru ekki á grásleppu.
 
Sömu sögu er að segja frá Noregi, þar eru veiðar ekki hafnar og úr þessu verður vart hafin vertíð.   
Á Grænlandi eru fimmtungi færri bátar á veiðum nú en á vertíðinni 2013.