Ýsa hækkar, en þorskur gefur eftir

Eitt af hlutverkum LS er að fylgjast með mörkuðum fyrir ferskan fisk. 
Á fyrstu þremur mánuðum þessa árs hefur ferskur þorskur lækkað um 4,3% í evrum talið en ýsan aftur á móti hækkað um 5,2%.  
Verðlækkun í þorski veldur áhyggjum þar sem heildarmagnið minnkaði um 4% milli ára.  Mestu munar þar um minni útflutning til Frakklands og Bretlands, en þær þjóðir kaupa mest af ferska þorskinum.  Að sama skapi minnkar hlutdeild þeirra frá því að vera 69% á tímabilinu janúar til og með mars 2013 niður í að vera 55% í ár.
Útflutningur á ferskri ýsu fer að langmestum hluta til fjögurra landa, Bandaríkjanna, Bretlands, Belgíu og Frakklands.  Hlutdeild þeirra í heildarmagni helst óbreytt milli ára, en magnbreytingar nokkrar milli einstakra þjóða.  
Verðhækkun var góð á Frakklandsmarkað en að sama skapi hefur útflutningur þangað minnkað töluvert á fyrsta ársfjórðungnum. Útflutningur til Bretlands og Belgíu hefur aukist á tímabilinu án þess að það hafi komið niður á verði.   
Heildarútflutningsverðmæti fersks þorsks og ýsu á fyrsta ársfjórðungi þessa árs nam 6,2 milljörðum sem er lækkun um 12,4% frá sama tímabili 2013.
Unnnið upp úr gögnum frá Hagstofu Íslands