Áhrif af gríðarlegri ýsugengd á veiðislóð krókaaflamarksbáta samhliða minnkandi veiðiheimildum kemur fram á ýmsum sviðum. Samantekt LS á veiðimynstri þeirra fyrstu 5 mánuði hvers árs frá 2011 sýnir þetta glöggt.
Á tímabilinu janúar – maí 2011 var hlutur handfæra í þorskafla krókaaflamarksbáta 14%, á sama tímabili á yfirstandandi ári er hlutfallið komið í 19%. Hætt er við að mikil ýsa á veiðislóð þeirra sé megin orsakavaldur þess að þeir hafi dregið svo mikið úr línuveiðum.
Þar sem krókaaflamarksbátar hafa aðeins heimild til að veiða bolfisk á línu og handfæri er það veiðarfæri bjargvættur þeirra meðan þetta ástand varir. Búast má við að ef þessi þróun heldur áfram leiði það til uppsagna við beitningu samhliða því að fara þarf fleiri róðra til að ná þorskkvótanum.
Í samtali LS við félagsmann sagðist hann ekki getað stundað þorskveiðar á línu með því að leigja til sín ýsu á 315 kr pr. kg. Það væri því ekki um annað að ræða en að segja upp mannskap og taka fram handfærarúllurnar. Hann sagði þetta dapurleg hlutskipti á sama tíma og miðin væru kakkfull af þorski og ýsu.
Krókaaflamarksbátar hafa á fyrstu fimm mánuðum þessa árs veitt um 20 þús. tonn af þorski.
Unnið upp úr gögnum frá Hagstofu Íslands