Mikil ólga er meðal smábátaeigenda og vinnsluaðila makríls vegna ákvörðunar sjávarútvegsráðherra að heimila ekki áframhaldandi veiðar. Landssamband smábátaeigenda óskaði eftir að hitta ráðherra sl. föstudag og afhenda honum áskorun félagsins ásamt þremur nýveiddum makrílum. Vegna anna sá ráðherra sér ekki fært að verða við óskum LS.
Vitað er að þingmenn hafa beitt sér í málinu og hvatt ráðherra til að koma til móts við sjónarmið smábátaeigenda og heimila áframhaldandi veiða.
Skessuhorn – féttaveita Vesturlands hefur meðal annarra fjölmiðla fjallað um makríldeiluna. Sl. föstudag ákvað ritstjórn blaðsins að kalla eftir viðbrögðum þingmanna Norðvesturkjördæmis um ákvörðun sjávarútvegsráðherra að stöðva makrílveiðar smábáta.
Spurningin sem lögð var fyrir þingmenn var:
Hver er ykkar skoðun á stöðvun makrílveiða smábáta frá og með 5. september 2014 með reglugerð sjávarútvegsráðuneytisins?