Stöndum vörð um línuívilnun

Undanfarnar vikur hefur Landssamband smábátaeigenda vakið athygli á að ekki hafi verið staðið við það sem fram kom í nefndaráliti Atvinnuveganefndar við tillögur um breytingar á lögum um stjórn fiskveiða í lok maí sl.  Í bókun nefndarinnar sem þingmenn höfðu m.a. sem forsendu fyrir ákvörðun sinni um að breyta lögum um stjórn fiskveiða sagði eftirfarandi:
„Engin meiri háttar breyting er fyrirhuguð um nýtingu á svonefndum pottum á komandi fiskveiðiári, en stefnt er að því að áætlun um nýtingu þeirra til lengri tíma verði fyrst lögð fram á löggjafarþingi 2014-2015.
Í reglugerð um heildarafla fyrir yfirstandandi fiskveiðiár er ofangreint hunsað.  Þar er gerð meiriháttar breyting frá því sem var í fyrra.  Línuívilnun í ýsu tekin niður um 1.000 tonn úr 2.100 í 1.100 og steinbítur úr 900 tonnum í 700.    
Línubali.jpg
Formaður og framkvæmdastjóri Landssambands smábátaeigenda funduðu um málið með sjávarútvegsráðherra við upphaf fiskveiðiársins og kröfðust þess að staðið yrði við það sem var forsenda þess að lagabreytingar voru samþykktar.  Krafist var að afli til línuívilnunar í ýsu og steinbít yrði tafarlaust færður til þess sem hann var á síðasta fiskveiðiári.  
Ráðherra hefur enn ekki orðið við því.
Auk Snæfellsbæjar ályktaði þing Fjórðungssambands Vestfirðinga sem haldið var á Þingeyri 3. og 4. október sl.  Þar var þess krafist að þær skerðingar sem áttu sér stað á aflamarki til línuívilnunar í ýsu og steinbít verði afturkallaðar strax og línuívilnun í þessum tegundum verði færð úr 20% í 30%.   
Sjá nánar:
Screen Shot 2014-10-08 at 18.11.18.png
Framhald þessa máls er að LS mun funda með Atvinnuveganefnd Alþingis og fara fram á að nefndin komi að málinu.   Fundurinn verður haldinn á morgun fimmtudaginn 9. október.
Afleiðingar ákvörðunar ráðherra eru strax byrjaðar að sýna sig.  Útgerðir hafa ákveðið að segja upp starfsfólki við beitningu og fækka sjómönnum samhliða því að bátum verður lagt.
Um málefnið var fjallað á RÚV í dag – sjá nánar.